mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Barátta upp á líf og dauða

20. september 2012 kl. 11:04

Danskir sjómenn segja að selur drepi svo mikinn þorsk að grundvellinum hafi verið kippt undan útgerðinni

Sjómenn við Bornholm og nærliggjandi svæði í Danmörk kvarta sáran yfir ágangi sela sem éti frá þeim þorskinn. Þeir segja að ástandið hafi versnað ár frá ári og nú sé svo komið að slagurinn um þorskinn við selinn sé barátta upp á líf og dauða, að því er fram kemur í dönskum fjölmiðlum.

Sjómenn minnast þess tíma áður en selurinn gerði strandhögg með mikilli velþóknun. „Við höfðum aðgang að besta fiski í öllu konungsríkinu Danmörk en sú tíð er liðin,“ er haft eftir einum þeirra.

Að sögn leita selirnir einkum í stærsta þorskinn. Hver selur étur um 3 til 5 kíló af fiskmeti á dag. Það segir þó ekki alla söguna því selurinn étur ekki allan fiskinn sem hann drepur. Í flestum tilvikum étur hann aðeins lifrina en skilur hitt eftir. Selurinn drepur því ótrúlegan fjölda fiska á degi hverjum.

Sjómenn kalla á aðgerðir gegn selnum því annars verði þeir undir í lífsbaráttunni; selurinn sé að kippa grundvellinum undan rekstri útgerðarinnar.