föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Barentshafsþorskurinn sækir æ lengra norður

1. október 2012 kl. 15:00

Þorskur á sundi.

Hefur ekki áður mælst svona norðarlega.

 

Með hlýnun sjávar hefur þorskurinn í Barentshafi sótt æ norðar og austar í hafið og hefur útbreiðsla hans ekki áður mælst svona norðarlega. Rússneska rannsóknaskipið Vilnjus varð vart við þorsk alveg norður á 82. gráðu og 30 mínútur norður í leiðangri sem nýlega er lokið. 

Reyndar var þorskur þarna í litlu magni en þróunin er sú að meginhluti þorskstofnsins teygir sig lengra og lengra í norður og austur. Þar er sjávarhiti ákjósanlegur og þar er einnig nóg fæða, að því er Harald Gjösæter fiskifræðingur segir í frétt á vefsíðu norsku hafrannsóknastofnunarinnar. 

,,Loðnustofninn er einnig sterkur svo það lítur út fyrir að þorskurinn hafi nóg að éta. Auk loðnu étur hann ljósátu, ískóð og umtalsvert af botndýrum. Þannig er útlit fyrir að þorskstofninn haldist stór áfram á komandi árum,“ segir Gjösæter, en útbreiðsla loðnunnar er nokkurn veginn sú sama og þorsksins.