miðvikudagur, 11. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Besta byrjun í manna minnum

1. nóvember 2013 kl. 16:05

Rækja (Mynd: Kristinn Benediktsson)

Rúmlega helmingur rækjukvótans í Arnarfirði þegar veiddur.

Það hafa verið farið í fimm róðra og rúmlega helmingur af kvótanum er búinn,“ segir Jón Páll Jakobsson, rækjuveiðimaður í Arnarfirði, í samtali á vefnum bb.is. Hann segir rækjuveiðimenn í firðinum ekki vita í hvort fótinn þeir eigi að stíga. Fjórir bátar stunda rækjuveiðar í Arnarfirði, Andri BA, Brynjar BS, Egill ÍS og Ýmir BA. Ýmir er búinn með sinn kvóta, rúm 30 tonn og hinir eiga samanlagt eftir 70 tonn. 

„Það stefnir allt í stystu vertíð sögunnar. Ég held það sé óhætt að segja að þetta sé ein besta byrjun á vertíð sem menn muna eftir. Þetta hefði þótt fréttnæmt þótt kvótinn væri 500 tonn, að það væri búið að veiða einn fimmta í fimm róðrum. Ég held að þessar rannsóknir nái ekki að kortleggja rækjuna nógu vel.“ 

Verði kvótinn fullveiddur í lok næstu viku, líkt og Jón telur, þýðir það að vertíðin hafi staðið í aðeins þrjár vikur. „Og af þeim þrem vikum er ein þar sem menn fara eiginlega ekkert fyrir brælu.“

Jón Páll segist telja líklegt að kallað verði eftir endurskoðun á kvótanum. Sjá nánar á bb.is