sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Björgúlfur EA brenndi innlendum lífdísil

15. desember 2011 kl. 15:36

Björgúlfur EA (Mynd: Þorgeir Baldursson).

Lífdísillinn unninn úr notaðri steikingarolíu og dýrafitu

Björgúlfur EA-312 er kominn til heimahafnar á Dalvík úr óvenjulegri veiðiferð en innlendur orkugjafi var prófaður í túrnum. Um er að ræða lífdísil sem framleiddur er hjá nýsköpunarfyrirtækinu Orkey á Akureyri. Lífdísillinn er unninn úr notaðri steikingarolíu og dýrafitu sem er úrgangur sem áður var urðaður, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

Kristinn F. Sigurharðarson, framkvæmdastjóri Orkeyjar, sagði í samtali við Fiskifréttir að það væri einsdæmi í heiminum að úrgangi væri breytt í orku sem síðan væri notuð á fiskiskip.  

Björgúlfur EA tók um 10 þúsund lítra af lífdísil með í síðustu veiðiferð. Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja, sagði að ráðgert væri að taka annan eins skammt með í næstu veiðiferð.   

Halldór Gunnarsson, yfirvélstjóri á Björgúlfi EA, sagði í samtali við Fiskifréttir að lífdísillinn hefði gefið mjög góða raun. ,,Við fylgdumst grannt með öllu og sáum ekki að neinn munur væri á því að brenna lífdísil eða öðru eldsneyti. Þetta tókst því í alla staði mjög vel,“ sagði Halldór.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.