föstudagur, 14. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Blæs lífi í veiðar og vinnslu

19. nóvember 2017 kl. 08:00

Elís Pétur Elísson. MYND/GUGU

Sértækur byggðakvóti á ný til Breiðdalsvíkur


 


Breiðdalsvík er 180 manna byggðarlag með sjálfstæða hreppstjórn og utan Fjarðabyggðar. Hún má muna fífil sinn fegurri sem sjávarútvegsstaður. Þar voru á síðustu áratugum síðustu aldar gerðir út tveir togarar, Hafnarey SU, og síðar Andey SU. Nú er útgerð þar hverfandi. Elís Pétur Elísson hefur ásamt fleirum barist fyrir því að fá aftur til bæjarins sértækan byggðakvóta sem gæti snúið hjólum atvinnulífsins í gang á ný. Og það tókst. 


Ekki svo að skilja að allt liggi í láginni á Breiðdalsvík. Öðru nær. Þangað hefur legið ört vaxandi straumur ferðamanna á sumrin og langt fram eftir haustum. Fyrirtæki á Breiðdalsvík, eins og Hótel Bláfell, Hótel Staðarborg, Kaupfjelagið og aðrir þjónustuaðilar hafa notið góðs af því en ekki síður íbúarnir allir. En brúa þarf bilið milli árstíðanna og auka atvinnustigið yfir vetrarmánuðina.

Heimahagarnir kalla og ræturnar liggja djúpt. Þetta má segja um Elís Pétur Elísson, sem eftir um 15 ára ævintýri um víða veröld, sneri aftur heim til Breiðdalsvíkur til þess að stofna fjölskyldu í náttúrufögru og barnvænu umhverfi og í næsta nágrenni við gjöful fiskimið.

Yfirvélstjóri á einkasnekkjum

16 ára fluttist Elís Pétur til Reykjavíkur, fór í Vélskóla Íslands og útskrifaðist fimm árum seinna sem vélfræðingur. Um tíma var hann vélstjóri á íslenskum fiskiskipum og um sjö ára skeið bjó hann að miklu leiti í útlöndum og vann sem vélstjóri á stórum einkasnekkjum. Fyrir um það bil fjórum árum snéri Elís Pétur aftur heim á Breiðdalsvík, stofnaði fyrst strandveiðiútgerð með mági sínum sem fljótlega fór að vefja uppá sig.

„Ég þvældist út um allan heim á snekkjunum en mest héldum við til í Miðjarðarhafinu og Karabíska hafinu. Stærsta snekkjan sem ég var á er 96 metrar á lengd og 36 í áhöfn. Ég var þar í eftirliti með nýsmíði skipsins í Hamborg í Þýskalandi sem yfirvélstjóri en samtals voru vélstjórarnir fimm. Snekkjan var í eigu forríks Rússa en þegar hún var tilbúin var hún minnst í förum en meira bundin við bryggju í Barcelona. Ég var líka á 75 metra langri snekkkju í þrjú og hálft ár en hún var í mjög mikilli notkun. Við vorum í Karabíska hafinu á veturnar og Miðjarðarhafinu á sumrin. Sú snekkja var í eigu Sir Donald Gosling, mikils heiðursmanns og var þetta hið skemmtilegasta ævintýri.“

Brothætt atvinnulíf

Fyrir fjórum árum fluttist Elís Pétur aftur heim í Breiðdalsvík og stofnaði þar fyrirtæki í kringum löndunarþjónustu og þjónustu í kringum Fiskmarkað Suðurnesja. Auk þess gerir hann út krókaaflamarksbátinn Ella P SU. Snemma eftir að hann kom heim fór hann að vinna í því að fá sértæka byggðakvótann á ný til Breiðdalsvíkur.

„Ég tel Breiðdalsvík eiga fullt erindi til þess að fá úthlutað úr þessum potti Byggðastofnunar. Byggðarlagið á mikið undir sjávarútvegi og rétt fyrir síðustu aldamót var hér um 1500 tonna kvóti sem hvarf frá Breiðdalsvík árið 1999. Mér fannst þetta fyrsta raunhæfa leiðin sem ég hafði séð eftir að ég lauk námi til þess að komast inn í sjávarútveginn og fá til baka aflaheimildir í byggðarlagið. Sértæki kvótinn er líka mjög mikilvægur til þess að koma hreyfingu á  hlutina á Breiðdalsvík. Atvinnulífið hérna er brothætt. Þó eru hér endalaus tækifæri og það þarf alls ekki mikið að koma til svo byggðarlag af þessu tagi geti gengið. Sértæki byggðakvóti Byggðastofnun er fyrirbæri sem getur virkað ef menn vanda sig,“ segir Elís Pétur.

Hann segir að Byggðastofnun hafi staðið þétt við uppbyggingu á Breiðdalsvík á síðustu árum en auk þess að úthluta sértækum byggðakvóta á Breiðdalsvík hefur stofnunin breytt gamla frystihúsi bæjarins í fjölnota hús sem nú hýsir einn stærsta og flottasta ráðstefnu- og tónleikasal Austurlands, iðnaðareldhús, trésmíðaverkstæði og fleira ásamt fiskvinnslu.

„Verkefnið Breiðdælingar móta framtíðina er samstarfsverkefni Breiðdælinga og Byggðastofnunar og hefur meðal annars hjálpað til við að koma smærri fyrirtækjum á laggirnar, s.s. Þvottaveldinu, Breiðdalsbita, Beljanda Brugghúsi og fleirum og því hefur stofnunin sinnt hlutverki sínu vel á Breiðdalsvík á undanförnum árum,“ segir Elís Pétur.

Landað verði 1.200 tonnum

Úthlutun á sértækum byggðakvóta til Breiðdalsvíkur var fyrst 150 tonn en hefur nú verið aukið í 400 tonn. Ísfiskur í Kópavogi opnaði fiskvinnslu á Breiðdalsvík 2015 og nýtti þennan kvóta í samstarfi við heimabáta, þar á meðal Ella P SU. Fyrirtækið sagði hins vegar samningnum við Byggðastofnun upp síðastliðið sumar og gaf upp sem ástæðu sveiflur í fiskverði, gengi krónunnar og launahækkanir. Vinnslan hafði þá tvö undanfarin ár haft samstarf við útgerðaraðila á staðnum um landanir og verð. Einn þeirra var Elís Pétur.

Elís Pétur var líka einn þriggja sem sóttu um sértæka kvótann þegar Byggðastofnun auglýsti hann á ný í september sl. Elís Pétur stóð að baki umsókninni ásamt einum heimamanni. Það var honum auðvitað mikið gleðiefni þegar haft var samband við hann frá Byggðastofnun og honum tjáð að hann fengi sértæka kvótann. Hann hefur nú þegar bætt við sig bát því í nóvember keypti hann Darra EA sem verður nefndur Áki í Brekku eftir afa Elís Péturs í móðurætt. Aðili að samningnum er Pétur Viðarsson sem gerir út bátinn Guðmund Þór SU á Breiðdalsvík. Lagt verður upp með að landa 1.200 tonnum. á Breiðdalsvík, þ.e.a.s. 400 tonnum af sértækum byggðakvóta og á staðnum eru 90 tonn af almennum byggðakvóta. Stærsti hluti aflans verður unnin á Breiðdalsvík.

Maður margra verka

Elís Pétur er maður margra verka. Hann sér fyrir sér uppbyggingu í sjávarútvegi á fæðingarstað sínum. Í samstarfi við konu sína rekur hann kjörbúðina, kaffihúsið og veitingastaðinn Kaupfjelagið í samnefndu húsnæði. Þar hefur verið haldið í gamlar innréttingar og muni frá því Kaupfjelagið gegndi lykilhlutverki í verslun á Breiðdalsvík.

„Við erum svo að innrétta gistiheimili á neðri hæð hússins. Þar var áður verslunar- og lagerhúsnæði en hugmyndin er sú að nýta húsið betur. Við erum líka í erfiðri aðstöðu að auka fjölda aðkomubáta hérna sem við þurfum að gera vegna löndunarþjónustunnar og til að auka innkomu á höfnina því mikill skortur er á húsnæði á vorin og sumrin. Við þurfum að geta tryggt sjómönnum trygga gistingu og þess vegna fórum við út í þessar framkvæmdir.“

En eins og þetta sé ekki nóg þá festi hann kaup á húsnæði við hlið Kaupfjelagsins og þar hefur hann í félagi við vin sinn og annan Breiðdæling opnað bruggverksmiðjuna og krána Beljanda. Þangað leggja fjölmargir ferðamenn leið sína enda hefur verið staðið að uppbyggingu verksmiðjunnar með miklum stórhug.