sunnudagur, 12. júlí 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Boðið að leigja á tvöföldu veiðigjaldi

Guðjón Guðmundsson
15. júní 2019 kl. 12:00

Unnsteinn Þráinsson, formaður Félags makrílveiðimanna.

45% skerðing á aflaheimildum til makrílbáta.

Mikil kurr er mönnum í Félagi makrílveiðimanna vegna frumvarps um kvótasetningu á makríl sem liggur fyrir Alþingi og þeir segja að leiði til 45% skerðingar í úthlutuðum aflaheimildum til þeirra. Skerðingin renni til stórútgerðarinnar og í sérstakan leigupott sem þeir eiga kost á að leigja úr aflaheimildir sem bera tvöfalt veiðigjald.

Unnsteinn Þráinsson, formaður Félags makrílveiðimanna, segir fullkomið misrétti falið í frumvarpinu. Þar sé gengið út frá veiðireynslu síðustu tíu ára sem valdi því að aflaheimildir þessa útgerðarflokks, sem hóf ekki makrílveiðar almennt fyrr en á árinu 2012 þynnist verulega út.

Umfram það sem nokkur getur sætt sig við

„Það er ansi þungt hljóð í okkar félagsmönnum. Samkvæmt frumvarpinu verða aflaheimildir okkar skertar um 45% miðað við þær úthlutanir sem við höfum haft frá árinu 2015. Þær hafa verið um 5.000 tonn en samkvæmt þessu fara þær niður í 2.700 tonn. Frumvarpinu var breytt í atvinnuveganefnd Alþingis okkur enn frekar í óhag. Miðað er við veiðireynslu síðustu ellefu ára og tíu bestu árin telja en okkar útgerðarflokkur hóf makrílveiðar almennt mun seinna en stórútgerðin. Þetta gerir það að verkum að okkar veiðireynsla þynnist verulega út. Það er ekki fyrr en 2010 sem við hefjum þessar veiðar að einhverju ráði. Staða okkar væri allt önnur ef farið yrði eftir gildandi lögum, það myndi tryggja okkur nær þeim 5.000 tonnum sem við höfum fengið úthlutað frá 2015. En 45% skerðing er langt umfram það sem nokkur getur sætt sig við. Það er augljóst að markmið frumvarpsins er að færa heimildir frá okkur til stórútgerðarinnar sem samningsgreiðslu fyrir að stórútgerðin sæki ekki skaðabætur á grundvelli dóms hæstaréttar frá því fyrir jól,“ segir Unnsteinn.

Hann segir að í meðförum atvinnuveganefndar hafi einnig verið bætt í leigupottinn sem samkvæmt frumvarpinu fari úr 2.000 tonnum í 4.000 tonn. Jafnframt sé gefið í skyn að þessi útgerðarflokkur sæti í raun ekki skerðingu heldur geti nýtt sér leigupottinn.

„Með þessu er vísvitandi horft framhjá muninum á því að hafa heimildir eða leigja þær gegn gjaldi í samkeppni við alla þá sem aldrei hafa stundað veiðar á makríl og merkilegt að talsmenn gegn fyrningarleiðum séu allt í einu farnir að tala fyrir þess háttar fiskveiðistjórnun.“

Leiguverð jafnhátt veiðigjaldi

„En með því að nýta sér pottinn þurfum við að greiða tvöfalt veiðigjald. Við þurfum að leigja úr pottinum á því gjaldi sem veiðigjaldið er á því ári og greiða auk þess veiðigjald. Það er engan veginn sanngjarnt að taka niður okkar veiðireynslu og ætlast svo til þess að við leigjum heimildir og borgum fyrir það tvöfalt hærra veiðigjald en stórútgerðin.“

Hann segir að miðað við frumvarpið hafi grundvellinum verið kippt undan rekstri margra lítilla makrílútgerða. Innan Félags makrílveiðimanna eru um 50 bátar sem lenda að óbreyttu í þessum skerðingum. Unnsteinn segir feiknarlega fjárfestingu liggja að baki þessum veiðum. Það kosti aldrei undir tíu milljónum að búa einn bát út til makrílveiða.

„Ég hef enga trú á því að mínir félagsmenn sætti sig við þessa málsmeðferð. Þegar mönnum finnst þeir misrétti beittir fara þeir alla leið. Við stöndum ennþá í þeirri trú að þetta verði leiðrétt og að við þurfum ekki að fara í hart. Stjórnvöld eru hér að endurtaka sömu mistökin í öðrum búning, okkar veiðireynsla í dag er nákvæmlega jafn rétthá og veiðireynsla stærri útgerðanna 2011 sem dómurinn féll með fyrir áramót.“

Fréttin birtist fyrst í Fiskifréttum 13. júní.