þriðjudagur, 24. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Bolfiskvinnsla Brims lokar í tvo mánuði

24. apríl 2020 kl. 22:07

Ný og stórlega endurbætt vinnsla verður opnuð þegar líða tekur á júní.

Bolfiskvinnslu Brims í Norðurgarði hefur verið lokað tímabundið en gert er ráð fyrir að vinnsla þar hefjist að nýju þann 24. júní. Þessir tveir mánuðir verða nýttir til að endurnýja vinnsluna. 

Þetta kemur fram í frétt frá fyrirtækinu en nánast öllum búnaði, allt frá móttöku aflans til pökkunar, verður skipt út. Segir í fréttinni  að nýtt karakerfi fyrir innmötun í hráefniskæli verður settt upp og karaþvottavél auk þess sem settur verður upp þjarkur (robot) sem losar fisk úr körum inn á hráefnisflokkara. Þetta er í fyrsta skipti sem þjarkur er nýttur á þennan hátt. Settar verða upp nýjar snyrtilínur, vatnsskurðarvélar og þjarkar sem pakka ferskum flökum og flakabitum í kassa. Allar afurðir fara í gegnum beinaleitarvél eftir breytinguna. Auk þess verður lausfrystum skipt út og frystikerfið stækkað. Einnig verða þjarkar notaðir til að raða kössum á bretti með ferskum flökum og flakabitum. Þá verður vinnsluhúsnæði og starfsmannaaðstaða lagfærð. Með þessari framkvæmd aukast afköst, nýting verður betri sem og gæði afurða.

Þá segir frá því að orlofstaka starfsmanna hefur verið samræmd og fræðsludagskrá skipulögð til að kenna starfmönnum á nýjan búnað og bætt vinnuumhverfi.

„Vegna covid-19 faraldursins hafa síðustu vikur verið mjög krefjandi á þessum stóra og flókna vinnustað. En hjá vinnslu Brims í Norðurgarði starfa um 150 manns frá fleiri en 20 löndum. Engin smit hafa komið upp hjá starfsmönnum Norðurgarðs. Stjórnendur vinnslunnar eiga mikinn heiður skilinn fyrir að leysa þetta flókna verkefni og halda uppi fullri vinnslu þar sem fyrirmælum sóttvarnarlæknis var fylgt út í ystu æsar. Slíkt kallar á þaulhugsað og nákvæmt skipulag,“segir í fréttinni.

„Starfmenn eiga ekki síður þakkir skildar. Þeir eru mjög meðvitaðir um sóttvarnir og hafa lagt sig fram um að fylgja fyrirmælum og breyta verklagi til að forðast smit. Allir hafa lagst á eitt og eiga mikið hrós skilið.“