mánudagur, 19. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Botnvarpan orkufrekust en skánandi

Guðsteinn Bjarnason
13. desember 2018 kl. 07:00

Veiðarfæri

Sjávarútvegsráðherra birti nýverið svar við fyrirspurn frá Ara Trausta Guðmundssyni um umhverfisáhrif nokkurra veiðarfæra.

Hafrannsóknarstofnun segir meiri og betri kortlagningu botngerða og vistkerfa umhverfis landið vanta. Unnið sé að því að bæta úr þeim skorti en jafnframt sé vel fylgst með erlendum rannsóknum.

Þetta kemur fram í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við fyrirspurn frá Ara Trausta Guðmundssyni. Ari Trausti spyr þar um umhverfisáhrif ólíkra tegunda veiðarfæra hér við land.

Samanburðurinn leiðir í ljós ýmsa kosti og galla ólíkra veiðarfæra. Botnvarpan er til dæmis orkufrekust, fer með allt upp í hálfan lítra af olíu á hvert kíló fisks sem veiðist, en flotvarpan hagkvæmust hvað orkunotkun varðar, og er munurinn að minnsta kosti fimmfaldur en allt upp í tífaldur.

Hagstofan segir gögn um orkunotkun botnvörpu reyndar frekar takmörkuð, en tekur fram að hana megi minnka með bættri orkunotkun nýrra skipa.

Orkunotkun línuveiða, netaveiða, handfæraveiða og snurvoðar er fremur lítil, en breytileiki er samt nokkur eftir því hve langt er siglt á miðin og hvort siglt er hægt eða hratt.

Batnandi kjörhæfni
Sérstaklega er fjallað um svonefnda kjörhæfni veiðarfæranna, en með kjörhæfni er átt við hve vel veiðarfæri henta til að veiða einungis ákveðnar tegundir eða ákveðna stærð af fiski.

„Sífellt er unnið að því að bæta kjörhæfni veiðarfæra, t.d. til verndar ungviði og tegundum sem ekki er æskilegt að veiða. Lítil kjörhæfni veiðarfæra getur haft mikil áhrif á vistkerfi, staðbundið sem og á stærri svæðum,“ segir í svari ráðherra.

Þannig er kjörhæfni botnvörpu sögð betri en flestra annarra veiðarfæra, og kjörhæfni snurvoðar er sömuleiðis sögð góð. Á hinn bóginn er kjörhæfni bæði línu og flotvörpu sögð frekar lítil.

Þá er kjörhæfni neta góð hvað val á stærð varðar, „þar sem möskvastærð er ráðandi þáttur“ en mjög lítil í vali á tegundum „og getur meðafli verið af ýmsu tagi.“

Kjörhæfni handfæra er hins vegar sögð lítil við val á stærð, „enda endurspeglast það í tíðum skyndilokunum þegar hlutfall undirmálsfisks í afla mælist of hátt“, en sæmileg varðandi val á tegundum.

Óskráður dauði

Hvað varðar bein áhrif botnvörpunnar á vistkerfið eru þau almennt sögð frekar lítil, en þó er fullyrt að þau hafi án efa verið umtalsverð í gegnum tíðina og séu mögulega nokkur enn í dag.

„Þó ber þess að geta að núverandi notkun einskorðast við fremur afmörkuð svæði þar sem veiðiálag er mikið og hefur varað lengi,“ segir í svarinu. „Smug smærri fisks í gegnum möskva veldur óskráðum fiskveiðidauða en umfang er óþekkt. Þróun í hönnun botnvörpu hefur verið nokkur undanfarið, m.a. hefur færst í vöxt að nota hlera sem snerta ekki botn.“

Síðan um aldamót hafa veiðisvæði botnvörpu minnkað á Íslandsmiðum.

Áhyggjur af meðafla
Hvað varðar netaveiðar þá hafa þær minnkað töluvert og eru nú lítill hluti veiða við Ísland.

„Meðafli sjávarspendýra og fugla í net er áhyggjuefni,“ segir í svarinu, en þetta vandamál er þekkt víða um heim miklar rannsóknir eru nú gerðar á því hvernig minnka megi meðafla sjávarspendýra og fugla við netaveiðar.

„Um net sem tapast í sjó (drauganet) er lítið vitað. En þó er þekkt að net sem tapast halda mögulega eitthvað áfram að fanga fisk og geti haft staðbundin áhrif á vistkerfið. Plastefni koma hér einnig við sögu. Fátt er vitað um magn tapaðra neta við Ísland frá upphafi vélabátaaldar.“

Mikið af tapaðri línu
Lítið er vitað um áhrif á vistkerfi á línusvæðum hér við land, en þó séu áhrif línunnar á botn sennilega mest á hörðum botni þar sem lifa langlífar lífverur.

„Nokkuð er um að línur tapist á hörðum botni og sést mikið af tapaðri línu við neðansjávarmyndatöku á kóralasvæðum. Plastefni frá línuveiðum verða því eftir í umhverfinu en magnið er óþekkt.“

Ennfremur er fullyrt að handfæraveiðar hafi sennilega afar lítil áhrif á botnvistkerfi.

„Helsta ástæðan er hversu létt veiðarfærið er, en þó aðallega vegna þess hve lítil hlutdeild veiðarfærisins er í heildarveiðiálagi við landið.“

Flotvarpan og snurvoðin
Flotvarpan er ekki sögð mikil áhrif á vistkerfin á annan hátt en að fjarlægja ákveðið magn af torfufiski úr uppsjávarlögunum.

„Hún snertir sjaldan botn og nánast er óþekkt að veiðarfærið tapist í hafi við veiðar.“

Þá er fullyrt að veiðar með snurvoð hafi sennilega lítil áhrif á vistkerfi hér við land.

„Er þetta vegna eiginleika snurvoðar og notkunar, en ekki síst vegna þess hversu lítil hlutdeild þessara veiða er í fiskveiðum við landið.“

Plógar og gildrur
Hvað varðar skelfiskplóga og gildrur segir Hafrannsóknarstofnun að ekki þurfi að hafa miklar áhyggjur af þeim. Notkun skelfiskplóga er lítil en hins vegar þurfi að fylgjast vel með veiðum með sæbjúgna- og ígulkeraplógum. „Sæbjúgnaplógar á hörðum botni og því veruleg hætta á að vistkerfi á botni eyðileggist, t.d. svampar og kóralar, ef plógur fer yfir þau.“

Gildruveiðarnar hafa lítil umhverfisáhrif en „það getur þó snúist við ef ásókn í þessar veiðar eykst.“

Hafrannsóknarstofnun hefur gert ýmsar rannsóknir á veiðarfærum. MYND/Hafrannsóknarstofnun