laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Breskur sjávarútvegur 2009: Minna magn en aukið verðmæti

3. október 2010 kl. 11:03

Afli sem barst á land á Bretlandi minnkaði lítillega á árinu 2009 en aflaverðmæti jókst. Útflutningur sjávarafurða jókst um 15%. Innflutningur á fiski dróst saman um 8% frá árinu 2008. Þetta kemur fram í nýbirtum hagtölum frá stofnun sem leggur á ráðin um stjórn fiskveiða, Marine Management Organisation (MMO).

Helstu hagtölur í breskum sjávarútvegi árið 2009 eru þessar:

  • Bresk fiskiskip lönduðu 581 þúsund tonni af fiski að verðmæti 674 milljónir GBP (120 milljarðar ISK) um einu prósenti minna en árið 2008 í magni en verðmæti jókst um 6%.
  • Bresk skip lönduðu 23 þúsund tonnum af þorski, sem er 67% samdráttur frá árinu 1994, 36 þúsund tonnum af ýsu, sem er 61% samdráttur miðað við sama tíma, og 172 þúsund tonnum af makríl sem er 28% minni afli en árið 1994.
  • Landað var 43 tonnum af leturhumri sem er 41% aukning frá árinu 1994. Löndun á krabba hefur aukist um 28% frá árinu 1994 og nemur nú 27 þúsund tonnum. Um 34 þúsund tonn af hörpudiski komu á land sem er tvöföldun frá 1994.
  • Um 12.200 sjómenn voru starfandi á Bretlandi árið 2009. Botnfiskur var um 37% af verðmæti sjávarafla en hlutfall botnfisks var 55% árið 2000. Uppsjávarfiskur skilaði 28% verðmætanna og skelfiskur hverskonar um 35%.
  • Um 54% af afla Skota í tonnum talið var uppsjávarfiskur, 90% af afla velskra skipa var skelfiskur, 54% af afla skipa frá Norður-Írlandi var skelfiskur en 44% af afla enskra skipa var uppsjávarfiskur.
  • Útflutningur sjávarafurða frá Bretlandi jókst um 15% frá árinu 2008. Helstu afurðir voru makríll, lax og síld. Stærstur hluti útflutningsins fór til Hollands, Frakklands og Rússlands.
  • Innflutningur á fiski minnkaði um 8% og nam 720 þúsund tonnum. Aðaltegund sem fluttar eru inn eru þorskur, túnfiskur og rækja.

Heimild: www.fis.com