föstudagur, 23. júlí 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Breytingar á skipastól Síldarvinnslunnar

20. júlí 2021 kl. 17:30

Myndir/Þorgeir Baldursson

Vísir í Grindavík kaupir Berg VE 44. Uppsjávarskipið Bjarni Ólafsson AK hefur verið seldur úr landi og eldri Börkur mun fá nafn skipsins.

Bergur ehf. í Vestmannaeyjum hefur samþykkt sölu á Berg VE 44 til Vísis í Grindavík. Skipið verður afhent nýjum eigendum í ágúst á þessu ári. 

Frá þessu segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar en en skipið er selt án aflaheimilda. Bergur ehf. mun í kjölfarið kaupa Bergey VE 144 af móðurfélagi sínu Bergi Hugin ehf. Er um að ræða hagræðingaraðgerðir til að auka nýtingu skipa félagsins en skerðingar Síldarvinnslusamstæðunnar námu um 1.500 tonnum í bolfiski fyrir komandi fiskveiðiár.

Þá hefur dótturfélag Síldarvinnslunnar, Runólfur Hallfreðsson ehf., einnig gengið frá sölu á uppsjávarskipinu Bjarna Ólafssyni AK 70 til erlendra aðila. 

„Salan er þó háð ákveðnum fyrirvörum af hálfu kaupenda sem munu skýrast innan mánaðar. Ef af verður mun skipið verða afhent nýjum eigendum á haustmánuðum. Eins og kunnugt er tók Síldarvinnslan á móti nýju skipi í júníbyrjun sem fékk nafnið Börkur. Í kjölfarið mun eldri Börkur fá nafnið Bjarni Ólafsson AK 70 og mun áhöfn og aflaheimildir þá flytjast á milli," segir í fréttinni.