föstudagur, 22. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

,,Dáinn" skipstjóri dæmdur í fangelsi

13. febrúar 2009 kl. 13:35

Skrifaði minningargrein um sjálfan sig í Fishing News

Skipstjóri frá Portsmouth á Suður-Englandi, sem kallaður hafði verið fyrir hjá bresku fiskveiðistofnuninni vegna fiskveiðilagabrota, þóttist vera dáinn og skrifaði síðan minningargrein um sjálfan sig í breska sjávarútvegsblaðið Fishing News.

Þetta vakti grunsemdir fiskeftirlitsmanns á suðurströndinni sem hafði samband við lögreglu og þá kom hið sanna í ljós, að því er fram kemur á vefnum FishInfo.

Maðurinn, Derek Atkins að nafni, var sakaður um margvísleg brot, meðal annars að hafa landað afla ólöglega og stjórnað skipi sínu án þess að hafa til þess tilskilin réttindi. Auk þess var hann ákærður fyrir annars konar svindl og svik og fyrir að hafa leynt yfirvöld því að hann hafði skipt um nafn meðan hann var á lista yfir kynferðisafbrotamenn.

Í minningargreininni í Fishing News sagði m.a. að Atkins hefði gefið sig allan í starf sitt og haft lítinn tíma fyrir yfirvöld sem stefndu að því að svipta breska fiskimenn rétti sínum til þess að stunda heiðarlega vinnu.

Síðan sagði Atkins um sjálfan sig: ,,Hann var álitinn heiðursmaður á sjó, hafði ríka kímnigáfu og var alltaf tilbúinn að hjálpa öðrum. Hann var hæglátur fjölskyldumaður og hans verður sárt saknað af fjölskyldu og vinum.”

Atkins var dæmdur í 30 mánaða fangelsi.