mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Dönskum fiskiskipum fækkar um helming

27. febrúar 2013 kl. 13:55

Danskir fiskibátar í höfn

Upptaka framseljanlegra aflakvóta meginskýringin.

Á tíu ára tímabili, frá 2001 til 2011, fækkaði dönskum fiskiskipum yfir 10 metrar á lengd um helming, fóru úr 1.256 skipum í 615 skip. Fækkunin varð mest eftir árið 2006 en þá voru teknir upp framseljanlegir einstaklingskvótar í fiskiskipaflotanum. 

Skrásett fiskiskip og fiskibátar í danska fiskiskipaflotanum eru samtals 2.787 talsins en stór hluti þeirra er ekki á atvinnuveiðum. Alls veiddi danski flotinn 709.000 tonn  á árinu 2011, þar af var bræðslufiskur 475.000 tonn. 

Þorskur var lengst af verðmætasta fisktegund Dana  og skilaði 20% af heildaraflaverðmætinu árið 2001, en á árinu 2011 var svo komið að makríllinn gaf mest eða 13% og á eftir komu þorskur og síld með 12% hvor tegund. Afli þorskfiska nam samtals 34.000 tonnum en makríls 35.000 tonnum. 

Heildaraflaverðmæti Dana á árinu 2011 nam jafnvirði 70 milljarða íslenskra króna á núverandi gengi. Til samanburðar má geta þess að aflaverðmæti Íslendinga var 154 milljarðar árið 2011 og heildarafli íslenskra skipa 1.149.000 tonn.