þriðjudagur, 18. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Draumur sem grotnaði niður

Guðsteinn Bjarnason
14. apríl 2019 kl. 07:00

Árið 1975 var kútter Sigurfara siglt til Akraness og hefur verið hafður þar til sýnis uppi á túni. Nú er hann allur gegnfúinn og vonlaust þykir að gera hann upp úr því sem komið er.

Minjastofnun hefur til afgreiðslu erindi frá bæjarstjórn Akraness sem óskar eftir því að fá að fara kútter Sigurfara, sögufrægu skipi sem grotnað hefur niður síðustu áratugina. Að sögn Kristínar Huldar Sigurðardóttur, forstöðumanns Minjastofnunar, verður erindið afgreitt í samráði við Þjóðminjasafnið.

„Þetta er sársaukafull aðgerð og stundum verður fátt um ráð,“ segir Lilja Árnadóttir sviðsstjóri á Þjóðminjasafni Íslands. „Það er ömurlegt að horfa upp á bátinn og menn verða bara að koma sér saman um einhverja niðurstöðu. Ef það ætti að gera við hann þá yrði það bara nýsmíð og þar með varla hægt að tala um eiginlegt varðveisluverkefni. Þá er draumurinn svolítið búinn.“

Ella María Gunnarsdóttir, forstöðumaður menningar- og safnamála á Akranesi, segir að fyrir nokkrum árum hafi danskur sérfræðingur verið fenginn til að meta ástands skipsins. Hann lagði jafnframt mat á kostnað við að gera skipið upp aftur.

Fuglar verpa í kinnungum
„Mig minnir að það hafi verið um 400 milljónir á þeim tíma. Enginn hefur viljað leggja út í þann kostnað,“ segir Ella María.

Þess í stað var ráðist í rannsókn þar sem safnað var saman ljósmyndum af kútternum og viðtöl tekin við ýmsa sem eiga minningar tengdar honum. Jafnframt var norskur sérfræðingur fenginn til að gera þrívíddarlíkan af bátnum, sem ætlað er til miðlunar á safninu og gefur möguleika á vinnslu teikninga.

Ella María segir það hafa verið erfitt að horfa upp á bátinn grotna niður, en segist samt ekki sárt að missa hann í förgun úr því sem komið er.

„Ég náttúrlega lék mér í þessum bát þegar ég var krakki og fannst hann æðislegur. Ég sakna hans eins og hann var, en ekki eins og hann er núna þegar ég horfi á hann svona hrörlegan á hverjum degi.“

Hún segir að bátnum hraki nú hratt, munur sjáist frá mánuði til mánaðar. Fuglar séu meira að segja farnir að finna sér glufur á kinnungum bátsins til að verpa í.

Grautfúið timbur
Magnús Skúlason arkitekt segir það hneyksli hvernig staðið hefur verið að málum.

„Það var aldrei neitt gert og í tíu eða ellefu ár var ekki einu sinni tekinn upp pensill til að bera á skipið þar sem það stóð úti á túni. Svo er timbrið allt í einu orðið þannig að það er ekki hægt að ganga á því. Ég var þarna á ferð fyrir nokkrum árum og stakk sjálfskeiðungnum mínum á kaf í stefnið. Þá sá ég að skipið var ónýtt. Það var ekkert heilt. Síðan hefur umræðan bara snúist um að mæla skipið upp og smíða nýtt skip eftir því.“

Fjármagn til varðveislu skipa og báta hefur verið af skornum skammti hér á landi. Töluverðu fé er varið til uppbyggingar gamalla húsa í gegnum húsafriðunarsjóð, en hvað báta varðar er vart öðru til að dreifa en fornleifasjóði, auk þess sem mynja- og byggðasöfn hafa af sínum naumu fjárráðum reynt hvað þau geta.

„Að Íslendingar skuli standa svona að málum gagnvart sínum arfi er alveg makalaust,“ segir Magnús.