sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Einn bjór og þrír kolmunnar!

11. júní 2009 kl. 15:00

Tilraunavinnsla á þurrkuðum kolmunna hér á landi lofar góðu og tekist hefur að vinna markað fyrir kolmunnaskreið í Nígeríu, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.

Hingað til hefur kolmunni aðallega farið í bræðslu hér á landi. Verið er að leita leiða til að vinna hann meira til manneldis og auka þar með útflutningsverðmæti verulega. Hjá Norlandia ehf. á Ólafsfirði hefur verið unnið að tilraunavinnslu á þurrkuðum kolmunna og hefur tekist að sýna fram á að framleiða má fyrsta flokks vöru til manneldis úr frystu hráefni.

Vöruþróun er nú á lokastigi hjá Norlandia og stefnir fyrirtækið að því að framleiða úr um 1-2 þúsund tonnum af kolmunna á ári, að því er Ásgeir L. Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Norlandia, segir í samtali við Fiskifréttir.

  Tilraunavinnsla á þurrkuðum kolmunna hófst hjá Norlandia árið 2007. Ásgeir segir að þurrkaður kolmunni sé líkt og önnur skreið notaður til dæmis í hrísgrjónarétti í heimahúsum sem bragðauki og prótíngjafi en einnig megi borða hann einan og sér. ,,Ég hafði gaman af því þegar einn söluaðili sagði mér að hann væri farinn að selja þurrkaðan kolmunna til öldurhúsa í Nígeríu. Menn koma þangað og fá sér einn bjór og þrjá kolmunna!“ segir Ásgeir.

Ásgeir segir að þurrkun á kolmunna margfaldi útflutningsverðmæti hans miðað við hvert tonn upp úr sjó samanborið við verðmæti bræðsluafurða. Hann segir að hærra verð sé meira að segja greitt fyrir þurrkaðan kolmunna heldur en herta þorskhausa þannig að eftir miklu sé að slægjast.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.