miðvikudagur, 25. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Eins og að fá kennslu í mannréttindum frá Atla Húnakonungi

10. ágúst 2011 kl. 10:22

Makríll (Mynd: Kristján Kristinsson)

Dálkahöfundur Guardian fjallar um makríldeiluna og segir að ESB geti ekki kennt öðrum ábyrgar fiskveiðar

Á vef guardian.co.uk er að finna harða ádrepu á ástandið í makríldeilu Íslendinga og Færeyinga annars vegar og Norðmanna og Evrópusambandsins hins vegar eftir dálkahöfundinn George Monbiot.

Hann segir að nær allir fiskstofnar víðast hvar í heiminum séu að hrynja vegna óstjórnar við fiskveiðar. Enginn um víða veröld hafi þó stjórnað fiskveiðum sínum jafn hörmulega og Evrópusambandið.

,,Þegar Evrópusambandið ætlar sér að kenna Íslendingum og Færeyingum hvernig eigi að stunda ábyrgar og hófsamlegar fiskveiðar er það eins og að fá kennslu í mannréttindum frá Atla Húnakonungi,“ segir George Monbiot.

Hann gagnrýnir stjórnlausar veiðar á makríl og átelur deiluaðila fyrir að leggja sig ekki meira fram um að semja um lausn deilunnar. Hann beinir spjótum sínum að okkur Íslendingum fyrir það hve stór hluti af makrílafla okkar hafi á undanförnum árum farið í framleiðslu á mjöli og lýsi. Hann telur það vera sóun í heimi sem skortir fiskmeti, einkum þegar mjölið er notað til að fóðra kjúklinga og svín. Hann bendir einnig á þann tvískinnung Norðmanna að hneykslast á makrílveiðum Íslendinga en kaupa á sama tíma af okkur fiskmjölið sem fóður í fiskeldi í Noregi.