mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Eitt skref áfram og tvö aftur á bak

20. nóvember 2012 kl. 14:07

Þorskur

Óábyrgur fréttaflutningur eitt mesta böl sjávarútvegsins í Bretlandi

Í leiðara á vef SeafoodSource er óábyrgur fréttaflutningur í Bretlandi um sjávarútvegsmál gerður að umtalsefni í grein sem nefnist „Eitt skref áfram og tvö aftur á bak“.

Þar segir að farið hafi verið í margar lofsverðar herferðir sem miði að því að auka fiskneyslu. Hins vegar reynist það oft vera svo að fyrir hver ein jákvæð skilboð sem nái til fólks í gegnum fjölmiðla komi tvær neikvæðar fréttir sem grafi undan því sem vel hafi verið gert. Þannig séu rangfærslur í fjölmiðlum að verða eitt mesta böl sjávarútvegsins.

Nýjasta dæmið sem bent er á þessu til stuðnings er fyrirsögn sem birtist á forsíðu Sunday Times þar sem fullyrt er að aðeins 100 fullorðnir þorskar séu eftir í Norðursjónum. Fréttin sem dregur upp dökka mynd af þekktustu fisktegund Breta var étin upp í mörgum öðrum fjölmiðlum. Hún fór því víða þótt hún væri sannanlega röng.

Höfundur greinarinnar segir rétt að halda því til haga að samkvæmt mati Alþjóðahafrannsóknaráðsins séu 21 milljón fullorðinna þorska í Norðursjónum samtals að þyngd um 65 þúsund tonn. Ennfremur hafi þessi stofn farið vaxandi síðustu sex árin.

Sjávarútvegurinn hefur gagnrýnt þennan óábyrga fréttaflutning. Skoski sjávarútvegsráðherrann, Richard Lochhead, hefur einnig látið málið til sín taka. Hann segir að skoskir sjómenn hafi lagt mikið á sig til að byggja upp þorskstofninn og náð árangri. Fréttaflutningur af þessu tagi sé ekki til þess fallinn að varpa ljósi á þennan góða árangur.