laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Eitt tæknilegasta skip flotans

Guðjón Guðmundsson
22. nóvember 2020 kl. 09:00

Stefnt er að sjósetningu Baldvins Njálssonar GK í febrúar. Tölvuteiknuð mynd/Skipasýn.

Stefnt að sjósetningu Baldvins Njálssonar í febrúar.

Góður gangur er í smíði á nýjum Baldvini Njálssyni GK fyrir Nesfisk í Garði hjá skipasmíðastöðinni Armon í Vigo á Spáni. Sævar Birgisson, framkvæmdastjóri Skipasýnar, þar sem skipið er hannað, segir ekkert annað benda til þess að staðið verði við tímasetningar og að skipið verði komið til Íslands fullbúið til veiða haustið 2021.

Frystitogarinn Baldvin Njálsson verður eitt af glæsilegri skipum í íslenska fiskiskipaflotanum. Hann verður rúmlega 66 metra langur og leysir af hólmi eldra skip með sama nafni sem er að komast til ára sinna og var smíðað í sömu skipasmíðastöð árið 1991. Nýja skipið verður 15 metrar á breidd og með 3.000 kW Wärtsilä aðalvél. Skrúfan verður 5 metrar í ummál og verður nýr Baldvin Njálsson í hópi sparneytnustu skipa í þessum flokki.

„Skrokkurinn er að taka á sig mynd og skipasmíðastöðin miðar við það að sjósetja skipið í lok febrúar. Vinnan við smíðina hefur gengið mjög hratt og vel og allt eiginlega á áætlun. Þó komu upp örlítil vandamál í síðustu viku þegar starfsmaður í skipasmíðastöðinni greindist með kórónuvírusinn sem hefur aðeins hægt á ákveðnum deildum innan fyrirtækisins,“ segir Sævar.

Í miðju innkaupaferli

Hann segir að nú séu menn í miðju innkaupaferlinu. Þar eru undir vélar, loftræstibúnaður og annað sem tilheyrir nýju skipi. Vinnslubúnaðinum svipar til þess sem er í Sólbergi ÓF. Búnaðurinn verður allur settur upp í skipinu suður á Spáni. Hann er framleiddur af Optimar í Noregi, t.d búnaður til pökkunar, frystingar auk lestarbúnaðar. Klaki ehf. í Kópavogi framleiðir öll færibönd og stóran hluta búnaðar á millidekkinu, þ.e. frá móttöku að flokkun, að frátöldum hausurum, roðdráttarvélum og flökunarvél.

Fryst verða flök um borð sem og hausar. Í skipinu verður vöruhótel með þjarka sem tegundar- og stærðarflokkar og beinir afurðum að sjálfvirkum pökkunarbúnaði. Brettastaflari staflar pökkuðum afurðum tilbúnum til löndunar og útflutnings.

Á millidekkinu verður flökunarvél og sjálfvirkur frystibúnaður. Lestin er á tveimur hæðum og samtals er rúmmál hennar 1.600 rúmmetrar.

Uppfært 23. nóvember: Í fyrri frétt af þessu máli sagði að Skipasýn hefði einnig hannað Sólberg ÓF sem var misritun blaðsins. Það var Skipsteknisk í Noregi sem það gerði.