föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ekkert kemur í stað loðnunnar

Guðsteinn Bjarnason
28. febrúar 2019 kl. 09:36

Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði. MYND/ÓM

Loðnubresturinn áfall fyrir fyrirtækin og byggðarlögin

„Þetta er mikið áfall fyrir þetta svæði hér, Austfirðina og svo Vestmannaeyjar,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði, um loðnubrestinn þessa vertíðina. Á Austfjörðum eru það Vopnafjörður, Neskaupstaður, Eskifjörður og Fáskrúðsfjörður sem verða fyrir högginu.

„Við tókum á móti 30 þúsund tonnum af loðnu í fyrra. Það er ekkert sem kemur í staðinn fyrir loðnuna, en við þessar aðstæður byrjum við fyrr á kolmunnanum.“

Það eru ekki bara fyrirtækin sem verða fyrir höggi heldur líka sveitarfélagið og ýmis þjónustustarfsemi, skipafraktin, sjómennirnir um borð og landverkafólkið.

„Þetta eru uppgrip fyrir fólkið. Fyrirtækin eru auðvitað sterk, en það hjálpar okkur hér á Fáskrúðsfirði að við erum í bolfiski á móti.“

Ekki er þó alveg öll von úti enn. Líklegt er að útgerðirnar muni senda tvö skip til frekari leitar.

„Ég held að það verði gert,“ segir Friðrik Mar. „Það er verið að stefna á það um helgina kannski en það þarf að vera samkomulag um þetta allt saman. Það þurfa að vera fiskifræðingar um borð.“

Áherslan yrði þá á svæðið fyrir sunnan land og að vakta vestangöngu.

„Vestangangan er alltaf seinni þegar hún kemur.“