föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ekki líklegt að síldin drepist

31. maí 2013 kl. 09:48

Síld

Súrefnisstyrkur í Kolgrafarfirði nálgast það sem eðlilegt má teljast.

Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun, telur að ekki sé nærri eins mikið af síld í Kolgrafarfirði nú og þegar síldardauðinn átti sér stað fyrr í vetur. Hann býst ekki við því að síldin sem nú er í Kolgrafarfirði drepist eins og gerðist fyrr í vetur. 

„Við höfum séð að súrefnisstyrkurinn í firðinum hefur verið að aukast alveg frá þessu lágmarki sem var frá miðjum desember fram í miðjan febrúar,“ segir Þorsteinn. Rætt var við hann í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Þar sagði hann að súrefnisstyrkurinn á svæðinu væri töluvert góður um þessar mundir og farinn að nálgast það sem eðlilegt megi teljast. Það bendi til þess að loftskipti hafi verið góð. Það komi kannski ekki á óvart miðað við hvassviðrið í vor.

„En varðandi magnið sem er þarna inni, þá vitum við ekki hversu mikið það er. En af fenginni reynslu myndi maður ekki gera ráð fyrir því að það væri viðlíka magn og var þarna í desember-janúar þegar um 300 þúsund tonn af síld voru inni í þessum litla firði,“ segir Þorsteinn.