mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ekki vart við mikið magn af loðnu nyrst á leitarsvæðinu

22. september 2016 kl. 11:01

Loðna

Umfangsmiklar loðnurannsóknir standa nú yfir

Mælingar á loðnustofninum standa nú yfir. Tvö skip Hafrannsóknastofnunar taka þátt í leiðangrinum, Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson. Leiðangurinn er mun umfangsmeiri en verið hefur í fjölda ára, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

„Við fundum loðnu fyrst norður við Austur-Grænland á 72°30´ og þar var um stóra og góða loðnu að ræða eins og oftast er nyrst á dreifingarsvæðinu,“ sagði Birkir Bárðarson, leiðangursstjóri um borð í Árna Friðrikssyni, í samtali við Fiskifréttir en rætt var við hann í um miðja vikuna. Árni Friðriksson var þá staddur suðaustan við Scoresbysund. Bjarni Sæmundsson kannaði svæðið við suðurhluta Austur-Grænlands norður að Grænlandssundi.

Þegar komið var að Scoresbysundi varð vart við ungloðnu í bland eins og við var að búast. Birkir sagðist lítið geta sagt um hve mikið magn væri á ferðinni fyrr en mælingum væri lokið. Enn ætti eftir að kanna Grænlandssund og svæðið suður af Scoresbysundi. „Við verðum varir við loðnu hér á svæðinu en ég hefði átt von á meiri loðnu norður af Scoresbysundi en við fundum að þessu sinni,“ sagði Birkir.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.