mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Eldur í vélarrými togara

22. september 2015 kl. 13:12

Skip og þyrla Landhelgisgæslunnar á leið til hjálpar

Björgunarskip Landsbjargar voru kölluð út frá Siglufirði og Skagaströnd um hádegisbilið og þyrla Landhelgisgæslunnar er farin í loftið til að aðstoða við að ráða niðurlögum elds sem kom upp í íslenskum togara. Togarinn er staddur um 25 sjómílur norðnorðvestur af Sauðanesi. 

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu er staðan ekki talin alvarleg í augnablikinu. Eldurinn kom upp í vélarrými togarans og því hefur verið lokað auk þess sem slökkvikerfi var sett af stað. Vonir standa til þess að eldurinn sé nú slökktur. Björgunarskip eru á leið á staðinn og þyrla Landhelgisgæslunnar með reykkafara. 

Átta manns eru um borð í togaranum en engin bráð hætta steðjar að áhöfninni. Á þessum slóðum er ágætt veður og gott í sjóinn. Nú er einungis beðið eftir sérhæfðum búnaði og mannskap til þess að komast inn í vélarrými togarans.