laugardagur, 15. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Engar uppsagnir hjá Vísi hf.

30. apríl 2014 kl. 14:13

Frá Húsavík. (Mynd: Hörður Kristjánsson)

Húsvíkingum kynnt ný framtíðarstörf í lok maí.

Engar uppsagnir eru fyrirhugaðar hjá Vísi hf. nú um mánaðarmótin, hvorki á Húsavík, Djúpavogi né Þingeyri. Eins og kunnugt er tilkynnti fyrirtækið fyrir mánuði að það íhugaði að flytja starfsemi sína frá þessum stöðum til Grindavíkur. Nú er ljóst að af flutningunum verður, segir í frétt frá fyrirtækinu.

Fyrirtækið lýsti því ennfremur yfir að það muni kappkosta að byggja upp nýja atvinnustarfsemi á stöðunum þremur. Það er gert til að draga eins og kostur er úr þeim áhrifum sem flutningur til Grindavíkur hefur á starfsfólk Vísis og samfélögin þrjú. Sú vinna hefur gengið vel að sögn forsvarsmanna Vísis hf. 

„Stjórnendur Vísis hafa að undanförnu lagt áherslu á uppbyggingu framtíðarstarfa á Húsavík. Starfsfólk fyrirtækisins hefur verið upplýst um gang mála, einnig verkalýðsforustan á staðnum og ekki sýst bæjaryfirvöld á Húsavík. Árlegt vinnslustopp vegna hráefnisskorts Vísis á Húsavík hefst nú um mánaðarmótin og það er von stjórnenda fyrirtækisins að starfsfólkinu á Húsavík verði fyrir lok maí kynnt ný framtíðarstörf sem þeim stendur til boða,“ segir í fréttatilkynningunni.  

Þá kemur fram að Vísir hafi þegar samið við Fiskeldi Austurlands um slátrun, vinnslu og pökkum á eldislaxi í starfstöð fyrirtækisins á Djúpavogi. Stjórnendur Vísis stefni að því að vinna þar að frekari atvinnuuppbyggingu með heimamönnum. Það sama eigi við um Þingeyri en flutningur þaðan sé fyrirhugaður eftir eitt ár.