mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Engin ákvörðun enn um framhald loðnuleitar

Guðsteinn Bjarnason
26. febrúar 2019 kl. 16:17

Venus NS að loðnuveiðum fyrir nokkrum misserum. Mynd/Ólafur Óskar Stefánsson

Útgerðin þyrfti að standa straum af frekari loðnuleit, en þá yrðu menn frá Hafrannsóknastofnun um borð í veiðiskipum. Skip Hafrannsóknastofnunar halda næst í togararall.

„Það er verið að skoða mögulega eftirfylgni, þá líklega veiðiskipa með okkar fólki um borð,“ segir Birkir Bárðarson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun, um það hvort eitthvert framhald verði á loðnuleit að þessu sinni, nú þegar skip stofnunarinnar hafa hætt leit. Þeirra næsta verkefni er togararallið.

„En það er eitthvað sem hefur ekki verið ákveðið ennþá. Þetta er eitthvað sem gæti verið næsta skref, en það þarf að taka ákvörðun um hvort og hvernig það verður fjármagnað.“

Hann sagði Hafrannsóknarstofnun ekki ríða feitum hesti þessa dagana, þannig að útgerðin þyrfti þá hugsanlega að standa straum af leitinni. Fundur var í dag með útgerðarmönnum en engin ákvörðun var tekin þar um framhald.

Birkir sagði engar endanlega tölur komnar út úr loðnuleiðangrinum, en að minnsta kosti sé hægt að fullyrða að ekki hafi sést neitt meira af loðnu í hafinu við landið en áður hafði komið í ljós. Engar forsendur séu til þess að mæla með loðnuveiði út frá þessum gögnum.

Hann segir enga augljósa skýringu vera á því hvers vegna ekki finnst meira af loðnu.

„En þessi árgangur sem ætti að vera upppistaðan i veiðinni, sem er 2016 árgangurinn, hann sáum við lítinn strax í haustmælingu 2017. Við sáum hann lítinn aftur að hausti 2018 og erum svo búnir að fara nokkrum sinnum til að reyna að sjá hvort einhvers staðar liggi eitthvað magn en ekki fundið.“

Birkir segir horfurnar ekki góðar heldur fyrir næsta vetur, þó ekkert sé hægt að fullyrða neitt um það ennþá.

„Það sem við sjáum varðandi næsta ár er bara það að í síðustu haustmælingu 2018 fengum við mjög lága vísitölu. En þá verður að hafa í huga að þessar vísitölur að hausti á ungviði eru ekki mjög áreiðanlegar.“

Ástæðan fyrir þeirri óvissu er sú að áður hefur mælst lítið af ungloðnu en síðar meir samt fundist meira af loðnu en sú vísitala gaf tilefni til.

Í þessari síðustu yfirferð fóru skipin allt frá Ingólfshöfða og austur um, og síðan með öllu Norðurlandi og allt vestur fyrir Víkurál út af Vestfjörðum.