miðvikudagur, 1. apríl 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Engin raunaukning á markílkvóta

8. september 2011 kl. 15:23

Makríll (Mynd: Þorbjörn Víglundsson)

Auknar veiðiheimildir aðeins veittar til að tryggja að upphafskvótinn náist, segir sjávarútvegsráðuneytið

Íslendingar hyggjast ekki veiða meira af makríl í ár en gert var ráð fyrir í upphafi, eða um 155 þúsund tonn. Auknar veiðiheimildir hafa aðeins það markmið að tryggja að upphafskvótinn náist, að því er Jóhann Guðmundsson, skrifstofustjóri auðlindaskrifstofu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, segir í samtali við vef Fiskifrétta.

Í frétt í Fiskifréttum í dag kem fram að úthlutun í makríl til íslenskra skipa hafi verið aukin úr 154.825 tonnum í 163.335 tonn. Inni í þeirri tölu voru 38.725 tonn til frystitogara samkvæmt upplýsingum sem fengnar voru á vef Fiskistofu í gær. Sú tala hefur reyndar verið færð niður í 37.225 tonn í dag. Heildarúthlutunin stendur því í 161.835 tonnum.

Jóhann Guðmundsson segir að hér sé ekki um raunverulega aukningu að ræða. Sjávarútvegsráðuneytið sé að nýta sér heimildir til að endurúthluta þeim makrílkvóta sem fyrirsjáanlegt sé að veiðist ekki, einkum í flokki frystitogara og ísfisktogara. Viðbótarheimildirnar, sem úthlutað hefur verið, séu því í raun fyrirfram tilfærslur innan flokka og milli flokka byggðar á áætlun um þróun veiðanna. Af tæknilegum ástæðum sé þessi leið farin. Dæmið verði síðan gert upp í lok vertíðar.

,,Við lentum í því í fyrra að ekki náðist að veiða um 8 þúsund tonn af heildarmakrílkvótanum. Við viljum koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig. Þótt skipin hafi fengið auknar heimildir erum við sannfærðir um að veiðin fari ekki umfram þau 155 þúsund tonn sem gert var ráð fyrir í upphafi,“ segir Jóhann Guðmundsson.