föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Er Kínavinnslan á undanhaldi?

15. febrúar 2016 kl. 12:35

Fiskvinnsla í Kína

Tölur sýna að stórlega hafi dregið úr sölu Norðmanna á heilfrystum þorski til Kína í fyrra.

Kínverjar hafa flutt inn mikið af heilfrystum hvítfiski frá vesturlöndum á síðustu árum, flakað hann og selt flökin inn á vestræna markaði.  Á síðasta ári gerðist það að útflutningur Norðmanna á heilfrystum þorski til Kína nam aðeins 22.000 tonnum samanborið við 48.000 tonn árið áður, samkvæmt hagtölum.

Talsmenn norska sjávarútvegsrisans Norway Seafoods telja að hér sé um varanlega breytingu að ræða sem stafi af því að laun í fiskvinnslu í Kína hafi hækkað mikið undanfarin ár og ekki borgi sig í sama mæli og áður að vinna og selja fisk með þessum hætti. 

Talsmaður Norska sjávarafurðaráðsins (Norges Sjömatsråd) segir í samtali við Fiskeribladet/Fiskaren að málið sé ekki svona einfalt. Heildarinnflutningur á hvítfiski til Kína í fyrra hafi verið svipaður og árið áður en samsetningin hafi breyst þannig að meira hafi komið inn af ufsa sem er ódýrari tegund en þorskur og ýsa.

Þá er bent á að 10.500 tonn af norskum fiski hafi farið til Kína í gegnum Holland í fyrra samanborið við 5.500 tonn árið áður og loks er nefnt að stór hluti úthafsflota Norðmanna hafi átt mikið eftir af kvótum sínum þegar leið að lokum síðasta árs og sá fiskur hafi ekki verið fluttur til Kína fyrr en í janúar á þessu ári.