sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Erdogan og ufsaverðið

13. júní 2018 kl. 07:00

Ufsasalan hefur verið dræm undanfarna mánuði. MYND/ÞB

Ufsamarkaðurinn hefur verið mjög þungur frá því fyrir áramót. Friðleifur Friðleifsson hjá Iceland Seafood segir pólitíska ástandið í Tyrklandi eiga þar stærsta sök.

„Markaður fyrir ufsa hefur í raun verið i henglum síðustu fimm til sex mánuði, jafnvel lengur,“ segir Friðleifur Friðleifsson hjá Iceland Seafood. „Það skýrist aðallega af því að tyrkneski markaðurinn er að taka mun minna magn.“

Ástæðuna fyrir því að tyrkneski markaðurinn er að taka minna magn rekur hann síðan til hins óstöðuga ástands sem nú ríkir í Tyrklandi og samdrætti í ferðamennsku. Megnið af ufsanum sem við seljum til Tyrklands hefur farið í hlaðborð hótela á ferðamannastöðum þar.

Tyrkneska líran hefur auk þess lækkað hratt undanfarna mánuði, um 20 prósent eða svo gagnvart evrunni og öðrum helstu gjaldmiðlum Evrópu, og hafði raunar verið á niðurleið síðustu árin.

„Það skýrir þetta að hluta. Svo er nýbúið að hækka stýrivexti upp úr öllu valdi. Staðan á þessum markaði er ekkert sérlega jákvæð, og þá snúa menn sér að þessum gömlu, góðu mörkuðum. Þýskalandi og Spáni og þar fram eftir götunum. En málið er að þar er staðan bara heldur ekkert sérstök. Það er mikið framboð inn á þessa markaði með lækkandi verði. Ástandið i Tyrklandi virðist hafa þarna dómínóáhrif, hún smitar allan markaðinn.“

Þýskaland hefur lengi verið mikilvægasti ufsamarkaður okkar, og er það enn að sögn Friðleifs.

Hreyfa sig hægt
„Svo hafa aðrir markaðir verið að koma inn, Pólland til dæmis og svolítið af ufsa selst í Bretlandi líka. En þessi tyrkneski markaður var að taka töluvert magn og reyndist okkur til dæmis í fyrravor mjög góður. Hann létti á stöðunni og þá gátu menn verið að sækja kannski ívið betri verð í Norður-Evrópu.“

Íslendingar hafa einnig verið að selja makríl til Tyrklands, en ekki í jafn miklu magni.

„Það magn er líka mun auðveldara að færa yfir á aðra markaði auk þess sem útlit á makrílmörkuðum er gott. Við erum ekki að sjá að við getum auðveldlega fært það magn sem hefur farið inn á tyrkneska markaðinn inn á aðra markaði eins og austur Evrópu og Asíu. Þar liggur til að mynda munurinn á ufsanum og makríl.“

Hann segir einhverjar vonir bundnar við að markaðurinn taki við sér að einhverju leyti eftir kosningar, sem haldnar verða í Tyrklandi 24. júní. Þá verður bæði kosið til þings og forseta.

„Flestir viðskiptavinir hreyfa sig hægt fram að því, vilja greinilega sjá hvað gerist. Þetta er ekkert alvarlegt ástand svo sem fyrir okkur en af mörgu góðu sem er að gerast í sölu á fiski þá er þetta einna þyngst. En þetta er í grófum dráttum staðan í ríki Erdogans.“