mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Eru að heykjast á banni við makríllöndunum

11. febrúar 2013 kl. 11:17

Makríll (Mynd: Þorbjörn Víglundsson)

Norskir fiskframleiðendur telja að Norðmenn skaðist meira á banninu en Íslendingar og Færeyingar.

 

Landssamtök fiskvinnslu  og fiskeldis í Noregi (FHL) íhuga að óska eftir því við norsk stjórnvöld að banni við makríllöndunum færeyskra og íslenskra skipa í Noregi verði aflétt. Ljóst þykir að banni bitni mun harðar á Norðmönnum sjálfum en hinum þjóðunum tveimur. 

Í upphaf kom bannið sér illa fyrir færeysk skip þar sem nægileg vinnslugeta var ekki til staðar í Færeyjum en síðan hafa Færeyingar verið að byggja upp landvinnsluna og eru ekki lengur eins háðir því að landa í Noregi og áður var. Íslendingar hafa aldrei verið háðir því að landa makríl í Noregi og bannið hefur því litlu skipt fyrir þá. 

Vegna makríldeilunnar höfðu norskir útgerðarmenn einnig bundist samtökum um að landa ekki uppsjávarfiski í Færeyjum og á Íslandi í refsingarskyni en það hefur sýnt sig að bannið heldur ekki. Norsk skip hafa ítrekað landað loðnuafla í bæði á Íslandi og í Færeyjum ef það hefur komið betur út fyrir útgerðir þeirra.  

Þetta kemur fram í norska sjávarútvegsblaðinu Fiskeribladet/Fiskaren í dag. Þar segir ennfremur að FHL hafi efasemdir um að Evrópusambandið muni láta verða af hótun sinni um að banna makríllöndun úr íslenskum og færeyskum skipum þegar sambandið sjái hvaða afleiðingar það hafi haft fyrir Noreg.