mánudagur, 30. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

ESB-flotinn of stór og dregið hefur úr hagkvæmni

10. ágúst 2011 kl. 14:29

Bjálkatroll

Orkufrekustu skipin óhagkvæmust og bjálkatrollið fær lökustu einkunnina

Eftir því sem fiskiskipaflotinn eyðir minni olíu þeim mun hagkvæmari eru veiðarnar, að því er fram kemur í nýrri skýrslu frá Evrópusambandinu. Frá þessu er greint á fishupdate.com. Skip með svokölluð bjálkatroll fá lökustu einkunnina; þau eru bæði talin vera skaðlegust lífríki sjávar og fjárhagslega óhagkvæmust.

Árleg skýrsla um veiðar ESB-flotans 2010 kom út í vikunni. Meginniðurstöður hennar eru þær að dregið hafi úr hagkvæmni fiskveiða inna ESB síðustu árin. Staðan sé þó misjöfn eftir einstökum útgerðarflokkum. Togaraflotinn á einkum í vök að verjast og lökustum árangri skila skip sem veiða með frumstæðum veiðarfærum eins og bjálkatrollinu. Mótstaða þeirra við botninn er mjög mikil og veiðar með þeim útheimtir mikla olíueyðslu. Þrátt fyrir afslátt af orkusköttum og rekstrarstyrki er þessi hluti flotans lítt arðbær. Stærstu bjálkatogararnir í Bretlandi, Belgíu og Hollandi eru reknir með tapi.

Í annarri ESB-skýrslu kemur fram að sóknargeta fiskiskipastóls Evrópusambandsríkja sé of mikil. Allt of hægt gangi að fækka fiskiskipum og þar með sé óhagkvæmni veiðanna viðhaldið. Framkvæmdastjórn ESB hefur ályktað að þessi staðreynd kalli á enn frekari breytingar á fiskveiðistefnu ESB. Sjávarútvegsstjórinn, Maria Damanaki, segir að ESB verði að hverfa frá þeirri stefnu að styrkja ofveiði á kostnað skattgreiðenda.