fimmtudagur, 20. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

ESB gerir Færeyingum nýtt makríltilboð

12. desember 2013 kl. 12:48

María Damanaki sjávarútvegsstjóri ESB

Damanaki segir það mun betra en fyrra tilboð til Færeyinga.

„Við höfum lagt á borðið nýja tilboð í  makríldeilunni sem er mun betra en það sem við höfum áður gert Færeyingum,“ sagði Maria Damanaki sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins á blaðamannafundi í Þórshöfn í Færeyjum í morgun, að því er fram kemur á vef færeyska útvarpsins. 

Jacob Vetergaard sjávarútvegsráðherra Færeyja staðfesti þetta og sagði að landsstjórnin myndi taka tillöguna  til athugunar. ESB býst við að fá svar við henni í þessari viku. 

Hvorki Damanaki né Vestergaard vildu upplýsa í hverju tilboðið væri fólgið en Vestergaard sagði að það væri áhugavert. 

Fram kom í máli Damanaki að norskum stjórnvöldum hefði verið tilkynnt um þetta nýjasta útspil ESB en hún kvaðst ekki geta sagt neitt um viðbrögð þeirra.  

Þess má geta að fyrra tilboð ESB sem lagt var fram í haust gerði ráð fyrir að Færeyjar fengju 12% makrílkvótans en Íslendingar 11,9%.