laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

ESB greiðir Máritaníu 8 milljarða fyrir veiðiheimildir

10. maí 2016 kl. 14:28

Spænskur fiskibátur við Máritaníu.

Nýr fiskveiðisamningur til fjögurra ára undirritaður milli ESB og Máritaníu

ESB skip fá leyfi til að veiða rækju, ýmsar tegundir botnfiska, túnfisk og uppsjávarfisk í fiskveiðilögsögu Máritaníu, samkvæmt nýjum fjögurra ára fiskveiðisamningi sem Evrópuþingið samþykkti nýlega.

Í staðinn fyrir fiskveiðiheimildirnar við Máritaníu greiðir ESB rétt rúmar 59 milljónir evra árlega (8,3 milljarða ISK) sem skiptist þannig að um 55 milljónir evra eru fyrir heildaraflamarkið og rúmar 4 milljónir evra til stuðnings við þróun sjávarútvegs í Máritaníu.

Flest ESB skipin eru frá Spáni en einnig eru nokkur skip frá Ítalíu, Portúgal, Frakklandi, Þýskalandi og fleiri löndum. Spánverjar fá til dæmis að veiða árlega 4.150 tonn af skelfiski, 6.000 tonn af lýsing, og 3.000 tonn af öðrum botnfiski. Auk þess fá 17 spánsk skip leyfi til túnfiskveiða í nót og 14 skip til veiða á túnfiski með línu.