sunnudagur, 17. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

ESB skoðar frjálst framsal kvóta

22. apríl 2009 kl. 14:28

Á meðal þeirra hugmynda sem Evrópusambandið hefur til skoðunar í tengslum við endurskoðun fiskveiðistefnu sinnar er stórfelld úrelding fiskiskipaflotans og frjáls framsal fiskveiðiheimilda. Þetta kemur fram í dagblaðinu Financial Times í dag, að því er ríkisútvarpið greinir frá.

Blaðið hefur undir höndum minnisblað sem kynnt hefur verið í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í tilefni þess að fyrsta heildarendurskoðun fiskveiðistefnu ESB frá 2002 stendur nú fyrir dyrum. Búist við að ný heildarlöggjöf um fiskveiðar líti dagsins ljós 2013. Ljóst er að sambandinu er mikill vandi á höndum því tæp 90% fiskistofna ESB eru ofveiddir, þriðjungur þeirra er sagður í útrýmingarhættu.

Á meðal þeirra lausna sem stungið er upp á í minnisblaðinu eru hugmyndir um að draga úr miðstýringu veiðanna og gera þær mun umhverfisvænni. Þá er sérstökum áhyggjum lýst vegna stærðar fiskiskipaflotans og sú staðreynd sögð helsta ástæða þess hversu erfiðlega hefur gengið að varðveita fiskistofna.

Útlit er því fyrir að úrelda verði stóran hluta flotans á næstu árum. Ein tillagan gengur svo út á að heimila frjálst framsal veiðiheimilda - kerfi sem Íslendingar hafa þegar tekið upp, bendir Financial Times á - í því skyni að auka hagkvæmni veiðanna og tengja þær betur lögmálum markaðarins.

Umhverfissamtök sem rætt er við í greininni segja minnisblaðið draga upp heiðarlega mynd af ástandi fiskistofna ESB en vara við hugmyndum um frjáls framsal veiðiheimilda, slíkt geti orðið til þess að fáein stórfyrirtæki ráði lögum og lofum í greininni.

ruv.is