föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Evrópa stærsti fiskmarkaður heims

16. september 2009 kl. 12:36

Sú goðsögn hefur verið lífseig að Asíubúar séu heimsmeistarar í fiskneyslu. Í nýrri neyslukönnunarskýrslu sem unnin hefur verið að undirlagi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins kemur hins vegar í ljós að Evrópa er stærsti markaður fyrir fiskafurðir í heiminum.

Íbúar ESB-ríkjanna borðuðu 12 milljónir tonna af fiski á árinu 2007 að verðmæti 10.000 milljarða íslenskra króna, að því er fram kemur í blaðinu Dansk Akvakultur.

Spánverjar eru stærstu einstaka fiskneysluþjóðin en innkaup þeirra námu 1.900 milljörðum ísl. króna. Frakkar vörðu litlu minna fé til fiskkaupa en Spánverjar, en í þriðja sæti er Ítalía með 1.550 milljarða króna. Þjóðverjar keyptu fisk í matinn fyrir 777 milljarða og Englendingar fyrir 714 milljarða.

Japanir hafa hins vegar vinninginn þegar kemur að því hversu stór hluti af matarpeningum heimilisins fer í fiskkaup. Hlutfallið er 17% í Japan samanborið við 6% í Evrópu og 2,4% í Bandaríkjunum.