miðvikudagur, 13. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Færa löndum sínum íslenskan fisk

Guðsteinn Bjarnason
27. október 2019 kl. 08:00

Tryggvi og Kristina í pökkunarsalnum. Aðsend mynd

Í Svíþjóð hafa tveir Íslendingar og fjölskyldur þeirra tekið að sér að svala þörf Íslendinga og annarra fyrir íslenskan fisk, og Svíar njóta líka góðs af þessu frumkvæði.

Annar Íslendingurinn keyrir íslenska góðgætið líka til Danmerkur og lengra suður á bóginn, allt til Austurríkis og Tékklands.

Hinn er með heildsölu í smábænum Bollebygd, ekki langt frá Gautaborg og selur þaðan fisk og fleira í verslanir þar í kring.

Fyrir utan fiskinn bjóða þeir báðir upp á íslenskt lambakjöt og sælgæti. Þorramatur, páskaegg og malt kemur einnig við sögu.

Ekta fjölskyldufyrirtæki
Fyrrverandi framkvæmdastjóri Fiskmarkaðar Íslands, Tryggvi Leifur Óttarsson, hefur nú búið í Svíþjóð um ellefu ára skeið.

Hann býr ásamt fjölskyldu sinni i Bollebygd, litlum bæ ekki langt frá Gautaborg, þar sem þau reistu fyrir nokkrum árum 600 fermetra hús undir starfsemi sína. Fyrirtækið nefna þau Grimsis.

„Við kaupum lausfrystan gæðafisk frá Íslandi. Samkeppnin á markaðnum hérna er hörð þannig að við völdum að leggja áherslu á umhverfisþættina til að skera okkur frá öðrum,“ segir Tryggvi. „Þetta er línuveiddur fiskur eða flatfiskur úr dragnót. Við tökum hann hingað oftast í 10 kílóa kössum og pökkum hér í neytendapakkningar, verðmerkjum og dreifum svo í verslanir. Við erum í raun heildsali hérna.“

Fyrir utan pökkunaraðstöðu er í húsinu lítil verslun þar sem hægt er að kaupa bæði fisk og aðrar vörur, íslenskt sælgæti og fleira. Þangað leita mikið Íslendingar úr nágrannabyggðunum.

Í sama bransa áfram
Fiskinn kaupa þau af nokkrum fyrirtækjum á Íslandi. Mikið kemur frá Fiskkaupum í Reykjavík, en einnig frá Hraðfrystihúsinu á Hellissandi, Sjávariðjunni á Rifi og Hafnarnesi VER í Þorlákshöfn.

„Við fáum eitthvað um 200 tonn af fiski á ári frá Íslandi. Þetta er fullunnin vara, við pökkum henni hér í neytendaumbúðir og sendum svo í búðirnar. Við jafnvel stillum út frystunum í búðunum, en stóru keðjurnar vilja það reyndar ekki. Þær eru með sína eigin frysta.“

Tryggvi er Snæfellingur og var framkvæmdastjóri Fiskmarkaðar Íslands í 16 ár áður en hann flutti til Svíþjóðar. Konan hans, Kristina Andersson, er sænsk og bjó lengi með honum á Íslandi.

„Svo vildi hún flytja út aftur. Ætli megi ekki segja að ég hafi látið það eftir henni,“ segir Tryggvi. En þá þurfti hann að fara að huga að því hvar bera ætti niður varðandi störf í Svíþjóð.

„Það lá kannski beinast við að skapa sér atvinnu í þeim bransa sem maður þekkti til í,“ en Tryggvi hafði þó prófað sig áfram heima.

„Við vorum búin að prófa þetta aðeins, senda út fisk í eitt og hálft ár og tókum síðan ákvörðun um að sækja ekki um aðra vinnu áður en við fluttum.“

Viðbrigði
Þau hjónin eru með þrjá starfsmenn, en Tryggvi segir það vera nokkur viðbrigði frá því hann var með allt að sextíu manns í vinnu á Fiskmarkaðnum. Nú gengur hann í öll störf sjálfur, pakkar og keyrir út og hvaðeina.

„Við erum með fasta viðskiptavini, verslanir, og svo er eitthvað að bætast við alltaf. Mest seljum við hérna á Gautaborgarsvæðinu, en svo sendum við aðeins á Stokkhólm og norður í land líka.“

Fyrir utan eiginkonuna taka fleiri úr fjölskyldunni þátt í störfunum. Dóttir þeirra sextán ára hjálpar oft til eftir skóla og um helgar.

„Svo eru tengdaforeldrar mínir sem eru á áttræðis og níræðisaldri líka að hjálpa til. Þeir eru gamlir bændur úr sveitarfélagi hérna skammt frá. Tengdapabbi er 82 ára og hann er að keyra út vörur, þannig að þetta er svona ekta fjölskyldufyrirtæki.“

Á faraldsfæti með íslenskan fisk
Guðbjörn Elíson hefur í tæp þrjátíu ár ekið með íslenskan fisk til viðskipavina í Svíþjóð, Danmörku og fleiri lönd sunnar í Evrópu.

„Ég verð enginn milljónamæringur á þessu, en ég hef gaman af þessu og ég lifi á þessu,“ segir Guðbjörn. Hann ekur um á léttum flutningabíl með frystigeymslu og kæli, fer á þriggja mánaða fresti nokkra hringi um Svíþjóð og Danmörku.

„Svo fer ég í Evrópuferð um jólin, núna fer ég hana bara einu sinni á ári. Þá fer ég alla leið til Austurríkis, tek Tékkland, Þýskaland, Lúxemborg, Belgíu, Holland og Danmörk og fleiri staði,“ segir Guðbjörn.

Fiskurinn er um 80 prósent af því sem Guðbjörn selur en næst vinsælast er íslenska lambið. Þá segir hann að um 65 prósent viðskiptavina sinna séu Íslendingar, en um 35 prósent Svíar, Danir og aðrir.

Svíarnir ánægðir
Fiskinn kaupir hann af íslenskum fyrirtækjum, mest frá Nesfiski í Garði, Ektafiski á Dalvík og Grimi kokki í Eyjum. Lambakjötið kemur frá SS og Norðlenska, og svo fær hann vörur frá sælgætisfyrirtækjum og fleirum.

Guðbjörn segir frá því að Svíar séu sérstaklega ánægðir með þessa vöru, ekki síst fiskinn.

„Þeir hefja mann alveg upp til skýjanna. Ég megi bara ekki hætta þessu. Það er gaman að taka við svoleiðis hrósi.“

Viðskiptin hafa aukist með árunum. Nú þarf hann að vera með tvo bíla, bæði um jólin og páskana.

„Annars er vöruúrvalið svipað. Ég er með þetta klassíska. Það eina útlenska er Prins Póló sem ég tel nú vera íslenskt. Svo er ég með blóðmör og lifrarpylsu, hjörtu og hvalrengi, þetta sem fólk þekkir. Þorramat náttúrlega og svo geri ég mikið af því að útvega Íslendingafélögunum hérna matvæli.“

Línufiskurinn orðinn vinsælli
Lengi framan af var uppistaðan sjófrystur fiskur í níu kílóa öskjum.

„Síðan byrjaði ég að kaupa línufisk af Nesfiski, honum er pakkað í fimm kílóa pakkningar og þá er hvert flak fyrir sig vakúmpakkað. Það hefur aukist mikið í vinsældum og er búið að ná yfirburðum yfir sjófrysta fiskinn. Þetta passar betur fyrir einstaklinga og litlar fjölskyldur.“

Upphafið má rekja til þess þegar Guðbjörn var matreiðslumaður á hóteli í Varberg, þar sem hann býr núna, en þá bjó hann reyndar í Smálöndunum. Íslendingur sem Guðbjörn þekkti frá því hann var kokkur í Laugaskóla í Dalasýslu var þá að læra íþróttafærði í Eslöv á Skáni, og sá fékk af og til sendan fisk frá pabba sínum, sem stundaði útgerð frá Skagaströnd.

„Hann spurði mig hvort ég gæti hugsað mér að selja eitthvað í nágrenninu þar sem ég bjó í Smálöndunum. Ég gerð það þangað til hann flutti til Íslands, og þá vildi ég halda þessu áfram. Þá fór ég líka að breyta til í vöruúrvalinu og svo þróaðist þetta smátt og smátt hjá mér.“

Núorðið vita flestir Íslendingar í Svíþjóð af þessu fyrirtæki. Guðbjörn lætur vita af sér á Facebook-síðum Íslendingafélaganna og auglýsir ferðirnar.

„Ég verð oft rosalega hissa þegar fólk hringir í mig og vissi ekkert af mér, kannski búið að búa hérna í fleiri ár.“