mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Færeyingar áfram á pyntingarbekknum

6. maí 2014 kl. 10:03

Klakksvík í Færeyjum

Rússar beita enn innflutningshömlum gagnvart færeyskum sjávarafurðum.

„Bakkafrost og Faroe Pelagic aftur á pínubonkin“ segir í fyrirsögn fréttar á vef færeyska útvarpsins í dag, en þar er fjallað um þær innflutningshömlur sem rússneska matvælaeftirlitið hefur beitt gagnvart færeyskum fyrirtækjum á þeirri forsendu að vörurnar frá þeim standist ekki heilbrigðiskröfur. 

Í fréttinni er bent á að meðan færeysk uppsjávarfyrirtæki geti ekki selt vöru sína á markaði Evrópusambandsins vegna refsiaðgerða sé rússneski markaðurinn sérstaklega mikilvægur. Því skapi það ótta í hvert sinn sem færeyskt fiskiðjuver sé beitt hertu eftirliti af hálfu Rússa. 

Sagt er að litur viðvörunarljósanna á heimasíðu rússneska matvælaeftirlitsins séu fljótir að breytast. Grænt þýði að allt sé í lagi, gult merki hert eftirlit og rautt þýðir bann við því að selja inn á rússneska markaðinn. 

Núna eru tvö færeysk fyrirtæki á rauðu ljósi, uppsjávarskipið Næraberg síðan í desember í fyrra og fiskiðjan Bakkafrost í Kollafirði allt frá árinu 2010. Fyrir nokkru var uppsjávarvinnslan Varðin Pelagic á Tvöroyri á rauða listanum en hefur nú fengið grænt ljós. 

Uppsjávarvinnslan Faroe Pelagic í Kollafirði og Bakkafrost í Klakksvík hafa verið á gulu ljósi síðustu mánuðina en voru síðan orðin græn. Núna eru þau aftur komin undir hert eftirlit.