sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Færeyingar byrjaðir makrílveiðar

28. maí 2013 kl. 13:08

Makríll (Mynd: Þorbjörn Víglundsson)

Finnur fríði og Tróndur í Götu riðu á vaðið.

Fyrsta makríl- og síldarfarminum hefur verið landað í Færeyjum á þessu ári. Hann fengu Finnur fríði og Tróndur í Götu í partroll, samtals 120 tonn, en þeir fóru út til þess að kanna ástandið á miðunum. Bæði skipin eru nú komin í fullan gang í veiðum suður af Færeyjum. Júpíter, sem verið hefur í slipp síðustu tvo mánuðina, er einnig kominn af stað.

Útgerðir sex frystiskipa hafa sótt um að taka á móti makríl til vinnslu um borð á þessari vertíð við Færeyjar. Útgerðin Thor í Hósvík er með fjögur skip á sínum snærum, Kai Y, Kai Li, Kai Shun og Josen Marti sem geta fryst samtals 670 tonn af makríl á sólarhring. Þá hafa félögin Fjord Fishing og Finance sótt um leyfi fyrir frystiskipin Atlantic Orion og An Xing Hai en afkastageta hvors um sig er 240-250 tonn á sólarhring. 

Þessi félög hafa öll áður fengið frystiskip til Færeyja í því augnamiði  að vinna makríl um borð. Tvö skipanna sem Thor hefur útvegað hafa legið í Skála í Færeyjum síðan í fyrrasumar og beðið þess eins að makrílvertíðin hæfist að nýju.