mánudagur, 30. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Færeyski makrílkvótinn seldur á 103 kr/kg á uppboði

10. ágúst 2011 kl. 15:52

Lafayette, stærsta verksmiðjuskip í heimi.

Er að mestu veiddur til vinnslu um borð í erlendum veiðiskipum.

Í gær fór fram annað uppboðið á makrílkvóta í Færeyjum. Boðin voru upp 7.000 tonn og fengust 4,68 færeyskar krónur fyrir kílóið eða jafnvirði 103 íslenskra, að því er fram kemur á vef færeyska útvarpsins. Það gefur færeyska landskassanum tekjur sem jafngilda 715 milljónum íslenskra króna.

 Fyrirtækin Fjord Fishing og Finance Company keyptu stærstan hluta kvótans eða rúmlega 4.900 tonn en þau ráðstafa honum til veiðiskipa sem fiska fyrir risaskipið Lafayette sem vinnur aflann um borð. Auk þessa keypti Framherji (dótturfyrirtæki Samherja í Færeyjum) 1.505 tonn, Næraberg 555 tonn og Thor 20 tonn.

 Alls hefur þá 14.000  tonna makrílkvóti verið boðinn upp í Færeyjum í sumar en á fyrra uppboðinu sem fór fram 26. júlí sl. fengust 264 milljónir ísl. króna fyrir 7.000 tonna kvóta.  Kvótinn sem seldur hefur verið á uppboðum í sumar hefur að stærstum hluta verið unninn um borð í Lafayette. Hingað til hefur skipið tekið á móti 26.000 tonna afla til vinnslu. Áætlað er að halda þriðja og síðasta uppboðið bráðlega en þá verða seld 6.000 tonn.

 Makrílkvóti Færeyinga er alls 150.000 tonn á vertíðinni. Þar af fá nótaskip með veiðireynslu 55.000 tonna kvóta og þurfa ekki að greiða gjald fyrir kvótann. Önnur skip fá 41.000 tonn og þurfa að greiða sem svarar 5,50 ísl. kr. fyrir kvótakílóið. Þá verða  20.000 tonn seld á uppboði eins og áður sagði og loks er 30.000 tonnum ráðstafað til Rússa í skiptum fyrir aðrar veiðiheimildir.