föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

FAO: Alþjóðlegt átak gegn ólöglegum veiðum

1. september 2009 kl. 12:03

Aðildarþjóðir FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, hafa náð samkomulagi um aðgerðir til þess að draga úr ólöglegum veiðum í heiminum. Þetta er fyrsti alþjóðlegi sáttmálinn sem sérstaklega tekur á þessu vandamáli.

Yfir 90 þjóðir standa að sáttmálanum. Honum er ætlað að stemma stigu við því að ólöglega veiddur fiskur komist á markað og draga þar af leiðandi úr þeirri freistingu að stunda slíkar veiðar.

Aðgerðirnar felast m.a. í því að erlendum skipum, sem óska eftir að landa fiski í viðkomandi ríki, verði beint til sérstakra hafna. Skipunum verður gert skylt að upplýsa fyrirfram um veiðar sínar og aflann um borð þannig að yfirvöld hafi ráðrúm til að bregðast við ef þurfa þykir.

Þá er þeim ríkjum sem að sáttmálanum standa gert skylt að sinna reglubundnu eftirliti samkvæmt samræmdum stöðlum, en með því að skoða skipsskjöl, veiðarfæri, afla og feril viðkomandi skips er oft unnt að fá vísbendingar um það því hvort skipið stundi ólöglegar veiðar.

Ef skipi er neitað um löndun verður að upplýsa um það opinberlega. Það kemur svo í hlut þess ríkis sem skipið er skráð hjá að fylgja málinu eftir.

Þá verður sett á laggirnar samskiptanet þar sem skipst verður á upplýsingum um skip sem stunda ólöglegar veiðar. Einnig er gert ráð fyrir að fátækum þróunarlöndum verði veitt aðstoð við að framfylgja sáttmálanum.