sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fengsælli grásleppuvertíð að ljúka

1. júlí 2021 kl. 09:00

Meðaltalsafli hvers báts er 43 tonn og hefur aldrei verið meiri, en verðið jafnframt sjaldan eða aldrei verið lægra

Grásleppuvertíðin hefur skilað um 7.400 tonnum á land og aflinn á bát er að meðaltali 43 tonn, sem er mesti aflinn í sögu grásleppuvertíða. Meðalafli hvers báts samsvarar þá yfir 80 tunnum af hrognum.

Landssamband smábátaeigenda (LS) segir frá þessu á vef sínum. Alls hafa 172 bátar verið á grásleppuveiðum í ár og í gær voru allir nema tveir búnir að ljúka veiðum.

Að sögn LS voru landanir á vertíðinni alls  2.742, sem skilar 2,7 tonna meðaltali.  

Aflahæsti báturinn varð Hugrún DA 1 með 115 tonn en Fúsi SH var með hæsta meðaltalið, eða 7,3 tonn á róður og hafði þá fengið 51,4 tonn í sjö róðrum.

„Vertíðarinnar 2021 verður þó ekki eingöngu minnst fyrir aflamet heldur einnig fyrir verð sem sjaldan eða aldrei hefur verið jafn lágt," segir LS.