sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fer loðnustofninn út úr norsku lögsögunni?

4. maí 2008 kl. 17:50

Sjávarútvegsráðherra Noregs, Helga Pedersen, álítur að hlýnun jarðar geti breytt hlutfallslegri dreifingu sameiginlegra fiskistofna strandríkja, ekki síst á milli lögsagna Noregs og Rússlands í Barentshafi.

Ráðherrann segir að loðnan gæti til dæmis fært sig norðar og austar og jafnvel horfið að meira eða minna leyti út úr norskri lögsögu í Barentshafi, að því er fram kemur í grein í Fiskeribladet.

Helga lét þessi orð falla á alþjóðlegri ráðstefnu um loftlagsbreytingar sem haldin var nýlega í Bergen í Noregi. Hún kvaðst ekki á þessari stundu vilja tjá sig sérstaklega um hugsanlegar viðræður strandríkja um nýtingu sameiginlegra fiskstofna í ljósi loftlagsbreytinga.

Ráðherrann gerði þó ekki ráð fyrir að væntanlegar breytingar ættu eftir að valda deilum milli strandríkja um nýtingu fiskistofna.

Helga tók fram að strandríki þyrftu að búa sig undir það að ræða þessi mál í framtíðinni. Hún benti á að með hlýnandi sjó færðu nýjar suðlægari fisktegundir sig einnig norður á bóginn. Norskur fiskiðnaðurinn gæti því vænst þess að fá tækifæri til að hagnýta nýjar nytjategundir síðar meir.