laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fiskaði nær 7.800 á fyrsta árinu

27. júlí 2019 kl. 12:00

Ísfisktogarinn Breki bættist í flota Vinnslustöðvarinnar á síðasta ári. MYND/ÓP

Breki VE hélt til veiða í fyrsta sinn frá Vestmannaeyjum 24. júlí 2018.

Réttu ári síðar, miðvikudaginn 24. júlí síðastliðinn, sigldi togarinn í höfn í Eyjum með fullfermi. 

Frá þessu er greint á vef Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum.

Þar segir að Breki komi sjaldnast með minna en lestarfylli af fiski úr veiðiferðum sem eru yfirleitt þrír til sex dagar.

Á þessu fyrsta ári hefur Breki fiskað tæplega 7.800 tonn. Aflaverðmætið er liðlega 1,5 milljarðar króna. Uppistaðan í aflanum er þorskur, ýsa, ufsi og karfi.

„Við blasir að Breki fer yfir 8.000 tonna markið á fiskveiðiárinu. Útgerð skipsins er afar farsæl og mjög hagkvæm. Skipið var hannað með mun stærri skrúfu en gengur og gerist. Hönnuðir töluðu um að þannig mætti fá mun meira afl með mun minni orku, jafnvel svo að olíunotkun minnkaði um tugi prósenta. Þetta hefur gengið eftir en ég ætla að bíða með að nefna tölur þar að lútandi fyrr en eftir að hafa kannað málið betur að fiskiveiðiárinu loknu,“ er haft eftir Sigurgeiri B. Kristgeirssyni, framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar.