föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fiskeldið nálgast 600 störf

3. febrúar 2016 kl. 15:01

Sjókvíaeldi

Tekjur af fiskeldi á síðasta ári voru um 9,3 milljarðar

Ársverk í fiskeldi hér á landi eru orðin um 560 að meðtöldum 200 afleiddum þjónustustörfum. Tekjur af fiskeldi eru um 9,3 milljarðar króna á ári. Þetta kemur fram í frétt á vef Landssambands fiskeldisstöðva.

Hefur beinum störfum í fiskeldi fjölgað um nær 20% frá árinu 2014. Þeim mun fjölga enn frekar á næstu árum í takt við aukna framleiðslu, einkum í sjókvíaeldi. Til samanburðar má geta þess að árið 2009 störfuðu aðeins 40 manns við sjókvíaeldi en gert er ráð fyrir að bein störf í greininni allri, þ.e. landeldi og sjókvíaeldi verði orðin um 400 í lok þessa árs.

Fyrirtæki og stofnanir sem þjóna fiskeldisfyrirtækjum eru m.a. fóðurfyrirtæki, netagerðir, verkfræðistofur, ráðgjafafyrirtæki af ýmsu tagi, sölu- og markaðsfyrirtæki, eftirlitsstofnanir, dýralæknar og háskólastofnanir á borð við Hólaskóla og svona mætti lengi telja.  

Gera má ráð fyrir að sala afurða fiskeldisfyrirtækjanna hafi á síðasta ári skilað þjóðarbúinu um 9,3 milljörðum króna tekjum. Fiskeldisfyrirtækin leggja fram mikilvægt skerf til fjölgunar atvinnutækifæra, einkum í samfélögum sem staðið hafa höllum fæti vegna fólksfækkunar um langt árabil og tekist hefur að snúa þróuninni við. Auk þessa afla fiskeldisfyrirtækin þjóðarbúinu umtalsverðan erlendan gjaldeyrir þar sem allt að 90% afurðanna eru seldar erlendis, segir ennfremur í frétt Landssambands fiskeldisstöðva.