þriðjudagur, 2. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fiskistofa heimilar ekki löndun á Írlandi

Gudjon Gudmundsson
11. mars 2020 kl. 10:35

Huginn VE. MYND/Óskar P. Friðriksson.

Býðst til að senda eftirlitsmann á kostnað útgerðar

Fiskistofa hefur bannað löndun íslenskra skipa á Írlandi og segir að meginregla við fiskveiðar sé sú að afla skal landað og hann veginn í íslenskri höfn. Sjómannasamband Íslands lagði til að Fiskistofa sendi eftirlitsmann til Írlands. Fiskistofa brást við þessu með því lýsa því yfir að hún hefði ekki boðvald yfir írskum stjórnvöldum um hvernig þeirra eftirliti og vigtun er háttað. Sá möguleiki sé þó fyrir hendi að eftirlitsmaður frá Fiskistofu geti farið og staðið yfir löndun erlendis á kostnað útgerðar.

Greint er frá málinu meðal annars á vefritinu www.tigull.is sem gefið er út í Vestmannaeyjum sem kallaði eftir viðbrögðum Fiskistofu. Forsaga málsins er sú að Huginn VE hefur landað alls fjórum sinnum kolmunna í Kyllibegs á Írland, síðast þann 10. mars 1.900 tonnum. Guðmundur Ingi Guðmundsson, stýrimaður á Huginn, sagði að ráðgert hefði verið að fara annan túr. En nú sé sú staða komin upp að sigla þurfi 400 sjómílum lengra hvora leið til þess að landa og fá 30% lægra verð. Ekkert annað íslenskt skip hefur landað á Írlandi en skip frá Færeyjum, Noregi, Danmörku og Skotlandi hafa landað þar án þess að gerð hafi verið athugasemdir við það.

Undarlega vaxið

Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, segir þetta mál undarlega vaxið hvernig sem á það sé litið.

„Mér finnst þetta allt hið furðulegasta mál. Fiskistofa kveðst ekki hafa neina lögsögu á Írlandi sem er örugglega alveg rétt. En  í hinu orðinu lýsir hún því yfir að hún geti sent eftirlitsmann út að því tilskyldu að útgerðin standi straum af kostnaði. Annað er að Huginn hefur landað fjórum sinnum á Írlandi. Í öllum löndunum hafa eftirlitsmenn frá viðkomandi yfirvöldum á Írlandi staðið yfir löndunum allan tímann og fylgst grannt með. Þeir hafa mælt tankana eftir teikningum og gengið úr skugga um það að búið sé að landa öllum aflanum áður en skipið fer. Það er líka áhugavert í þessu samhengi að það hefur verið að koma meiri afli upp úr skipinu en hérna heima. Eitthvað virðast því Írarnir vera að gera rétt í þessum vigtarmálum,“ segir Valmundur.