þriðjudagur, 18. janúar 2022
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fisktegundir munu ráða misvel við súrnun hafsins

22. júlí 2017 kl. 09:00

Hrönn Egilsdóttir hefur í sumar kafað í Breiðafirði og víðar í leit að eldvirkum svæðum á hafsbotni sem hentað gætu til rannsókna á súrnun sjávar. MYNDIR / HRÖNN EGILSDÓTTIR

Fátt er enn vitað um áhrifin á lífríkið hér við land

Búast má við því að sumar fisktegundir verði undir í lifsbaráttunni þegar aðstæður versna í hafinu vegna súrnunar. Mikilvægt verður þá að huga að veiðiálagi á einstakar tegundir og skoða hvort fæðuframboð sé nægilega mikið til að þær geti lifað af í breyttu umhverfi. Rætt við Hrönn Egilsdóttur .

Hætt er við því að súrnun hafsins valdi því að fisktegundum fækki þegar fram líða stundir, ef marka má niðurstöður nýrrar rannsóknar sem vísindamenn við háskólann í Adelaide í Ástralíu hafa gert.

Hrönn Egilsdóttir, nýdoktor við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, segir þessa rannsókn allrar athygli verða. Sjálf telji hún spennandi kost að framkvæma sambærilega rannsókn í hafinu hér við land.

Einungis rúmur áratugur er síðan vísindamenn fóru að beina athygli sinni að súrnun hafsins í einhverjum mæli og skoða áhrif hennar á lífríkið í hafinu. Smám saman hefur þekkingin vaxið en þetta er flókið ferli og erfitt að útbúa rannsóknir sem spá fyrir um viðbrögð vistkerfa við breyttum aðstæðum. Sú vegferð er enn afar skammt á veg komin.

Ný rannsókn bendir þó til þess að fisktegundum í sjónum geti fækkað þegar hafið súrnar. Sumar tegundir muni eiga auðveldara með að lifa af samkeppnina þegar aðstæður í hafinu verði erfiðari, en það séu ekkert endilega þær tegundir sem menn kæra sig helst um að veiða og snæða.

Vísindahópnum stýrði Ernst Nagelkern sjávarlíffræðingur, en hann er prófessor við umhverfisstofnun háskólans í Adelaide og niðurstöðurnar voru birtar í tímaritinu Current Biology nú í þessum mánuði.

Eldvirknin notuð til samanburðar
Rannsóknin fór þannig fram að lífríkið var skoðað á tvenns konar ólíkum svæðum í hafinu og borið var saman hvernig samskipti tegundanna var háttað á þessum tveimur ólíku svæðum. Annars vegar var það svæði með mikilli eldvirkni þar sem koltvísýringur streymir upp úr hafsbotninum með þeim afleiðingum að pH-gildi hafsins er þar lægra, hafið er súrara en á samanburðarsvæði þar sem magn koltvísýrings og þar með sýrustig hafsins var með svipuðum hætti og almennt gerist.

„Þetta er góð langtímarannsókn sem tekur tillit til vistfræðilegra þátta.“ segir Hrönn. „Flestar rannsóknir hingað til hafa verið mjög takmarkaðar. Þær hafa aðallega bara verið gerðar í fiskabúrum og þá er verið að skoða áhrifin á eina tegund í einu. Í þessari rannsókn eru skoðaðar nokkrar tegundir fiska auk nokkurra vistfræðilegra þátta, og svo eru niðurstöður tilrauna úti í náttúrunni skoðað með tilliti til tilraunua á rannsóknarstofu og til að reyna að sjáhvaða vistfræðilegu þættir skipta máli þegar kemur að súrnun sjávar.“

„Í rauninni gefa niðurstöður þessarar rannsóknar okkur samt ekki meira en mögulega hugmynd um það sem getur gerst í framtíðinni,“ segir Hrönn. Hún segir heldur alls ekki hægt að heimfæra þær upp á okkar slóðir hér við Ísland, því bæði er vistkerfið um margt ólíkt og tegundirnar allt aðrar.

„Þetta er samt klárlega eitthvað sem við myndum vilja skoða sérstaklega hér á landi.“

Kafað í Breiðafirði
Sjálf hefur hún mikinn áhuga á að sjá sambærilega rannsókn hér við land en rannsóknir hennar í sumar hafa sérstaklega gengið út á að finna eldivirk svæði í sjó með uppstreymi koltvíoxíðs. Hún hefur verið að kafa og við í samskiptum við heimafólk til dæmis í Breiðafirði þar sem líkur eru til þess að svona svæði geti fundist.

„Það eru til ritaðar heimildir um það og heimafólk kannast við loftbólur sem berast af sjávarbotni á ákveðnum svæðum,“ segir Hrönn. „Ef við finnum svona svæði hér við land þar sem mikið gas kemur af hafsbotni, ekki ósvipað ölkeldum á landi, koltvíoxíðgas, þá erum við að tala um einstakt tækifæri til að rannsaka áhrifin af súrnun sjávar á íslensk vistkerfi á strandsvæðum, en það eru í raun bara á örfáum svæðum í heiminum sem menn geta gengið að slíkum náttúrulegum tilraunastofum sem veita þennan glugga inn í framtíðina.“

En jafnvel þótt slík svæði fyndist þá er ekki víst að þau séu nothæf til rannsókna á súrnun sjávar.

„Til dæmis getur brennisteinsmengun verið of mikil eða annað sem spillir svæðinu. Svo langar mig til að sjá uppsetningu á tilraunaaðstöðu þannig að ef við finnum ákveðin mynstur úti í náttúrunni væri hægt að skilja betur þá líffræðilega mekanísma sem standa að baki þeim mynstrum og kanna samverkandi áhrif súrnunar sjávar með öðrum umhverfisbreytum, svo sem hitastigi og fæðuframboði.“

Rannsóknir af þessu tagi ganga meðal annars út á að finna hvaða tegundir láta sér súrnun hafsins engu skipta og hvaða tegundir verða fyrir neikvæðum áhrifum.

„Lífverur eru í stöðugri samkeppni um fæðu og pláss. Þannig þarf að hafa í huga að þótt rannsókn sýni að súrnun sjávar hafi einungis takmörkuð neikvæð áhrif á tegund A þá þarf að setja niðurstöður rannsóknir í vistfræðilegt samhengi. Þannig gætu lítil neikvæð áhrif á líffræðilega virkni hjá tegund A leitt til víðtækra vistfræðilegra áhrifa ef þetta verður til þess að hún tapar í samkeppni við tegund B sem þolir mikinn breytileika í sýrustigi sjávar.“

Tól í verkfærakassanum
Nákvæmlega þetta segir Hrönn einna athyglisverðast við áströlsku rannsóknina sem vísað var til hér að ofan.

„Sú rannsókn bendir til þess að í sumum vistkerfum gæti veiðiálag á ákveðnar tegundir haft talsvert að segja um það hvernig vistkerfi muni breytast með breyttum umhverfisaðstæðum. Þannig sýndi þessi tiltekna rannsókn fram á mun neikvæðari áhrif súrnunar sjávar á líffræðilegann fjölbreytileika þegar veiðiálag á eina tegund var mikið, en minna veiðiálag leiddi til mun takmarkaðri neikvæðra áhrifa á vistkerfið,“ segir Hrönn.

Hún segir að þetta þurfi menn að hafa í huga í framtíðinni og rannsaka vel.

„Því ef veiðiálag er mikið á ákveðnar tegundir sem hafa mikilvægu hlutverki að gegna í vistkerfinu, hvaða hlutverk sem það er, þá getum við upp að vissu marki reynt að takmarka neikvæð áhrif umhverfisbreytinga með því að stjórna veiðiálaginu. Það er hugsanlegt að með afar góðri og víðtækri þekkingu á vistkerfum sjávar gæti stjórnun veiðiálags orðið eitt af mikilvægari tólunum í verkfærakistu okkar mannanna í framtíðinni, ef reyna á að takmarka neikvæð áhrif umhverfisbreytinga af manna völdum, þ.e.a.s. loftslagsbreytingum og súrnun sjávar.“

Búsifjar í Bandaríkjunum
Áhrifin af súrnun sjávar hafa verið að koma betur í ljós á síðustu árum þótt almennt sé illa þekkt hvort og hversu mikil áhrif hafa þegar orðið. Fyrirtæki í skelfiskeldi við vesturströnd Bandaríkjamanna hafa þó þegar orðið fyrir miklum búsifjum vegna súrnunar hafsins.

„Árið 2008 og á árunum þar á eftir olli hrun í ostrueldi rúmlega 100 milljona dollara tapi á allri vesturströndinni. Orsök hrunsins var ekki ljós í fyrstu en skýrðist þegar vísindamenn fóru að vinna með hagsmunaaðilum. Orsökin reyndist súrnun sjávar sem leiddi til þess að lirfur ostranna gátu ekki myndað skel með góðu móti.“

Í framhaldi af þessu segir Hrönn að Bandaríkjamenn hafi farið að leggja mikla áherslu á rannsóknir á súrnun sjávar en þær rannsóknir hafa meðal annars skilað sér í uppgötvun á ostrustofnum sem eru genetískt betur í stakk búnir til að takast á við súrnun sjávar.

Fáliðað í rannsóknum
Hrönn segir afar fáliðað í hópi þeirra vísindamanna hér á landi sem koma að rannsóknum á súrnun hafsins á einn eða annan hátt en þá megi telja á fingrum annarar handar. Jón Ólafsson, Sólveig Rósa Ólafsdóttir og fleiri hjá Hafrannsóknastofnun, rannsókna og ráðgjafastofnun haf og vatna, hafa fylgst náið með sýrustigi sjávar í úthafinu norður og suður af Íslandi.

Enn sem komið er vita menn lítið um möguleg áhrif af súrnun sjávar á lífríkið hér við land sérstaklega en nokkrar rannsóknir sem birst hafa síðustu ár gætu gefið vísbendingar.

Lirfustigið viðkvæmast
„Til dæmis er aðeins búið að rannsaka þorskinn núna síðustu ár, og þá aðallega einstaka þorska í fiskibúrum, ekki þorska í sínu náttúrulega umhverfi. Sumar rannsóknir sýna að þorskar þoli súrnun nokkuð vel, en svo má til dæmis nefna rannsókn sem sýndi að það urðu vefjaskemmdir í lirfum þorska í súrari sjó. Lirfustigin eru almennt viðkvæmustu lífsstig og því mikilvægt að rannsaka þau sérstaklega en margar fyrstu rannsóknir á súrnun sjávar beindust að seinni lífsstigum hjá fiskum og skeldýrum.“

Áhrifin á skeldýr hér við land eru heldur ekki vel þekkt enn sem komið er.

„Kræklingur er sú tegund sem við ræktum og er verið að nýta en kræklingur þolir ansi breytilegar umhverfisaðstæður. Hann er líklega með harðgerustu skeldýrum. Rannsóknir hafa að vísu sýnt að það geta komið fram neikvæð áhrif á krækling, en almennt er það samt þannig að þarf bara að gefa honum nóg að borða þar sem skelmyndun og viðhald skeljarinnar krefst aukinnar orku í súrari sjó. “

gudsteinn@fiskifrettir.is