þriðjudagur, 10. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fiskur kældur með hraði niður fyrir 0 gráður

Guðjón Guðmundsson
11. maí 2018 kl. 15:00

Hjónin Elfa Hrönn Valdimarsdóttir og Freyr Friðriksson, eigendur KAPP.

KAPP ehf. vaxið í að vera stoð fyrir sjávarútvegsfyrirtæki

KAPP ehf. er dæmi um eitt af þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem vaxa upp og dafna í kringum sjávarútveginn. Fyrirtækið var stofnað árið 2007 og var fyrstu árin rekið sem heildsala en árið 2012 breyttist reksturinn í framleiðslu-, viðgerðar- og þjónustufyrirtæki. OPTIME_ICE vélar fyrirtækisins kæla fisk hratt niður fyrir 0 gráður með ísþykkni.

33 starfsmenn vinna hjá KAPP fyrir utan sumarstarfsmenn. Fyrirtækið þjónustar margskonar fyrirtæki, lögaðila og einstaklinga og skiptist í raun í þrjár deildir:

 „Kæliverkstæðið okkar sinnir allri almennri þjónustu á frysti- og kælitækjum bæði á verkstæði okkar og hjá viðskiptavinum. Starfsmenn á kæliverkstæðinu eru með sérfræðiþekkingu í CO2-, freon- og ammoníakskerfum.  Á árinu höfum við sett upp fjögur CO2 kerfi, þar að meðal fyrir fiskvinnslu, verslanir og þessa dagana erum við að klára stóra frystigeymslu hér á höfuðborgarsvæðinu. CO2 (kolsýrukerfi ) er umhverfisvænn kælimiðill,“ segir Friðrik Óskarsson, annar eigenda og framkvæmdastjóri Kapp.

Kæli- og frystivélar fyrir vörukassa og trailera

„Vélaverkstæðið okkar sérhæfir sig í öllum almennum vélaviðgerðum, heddplönun, ásprautun, borun á vélarblokkum o.s.fr.

Við erum með mjög gott renniverkstæði sem sérhæfir sig í rennismiði og fræsivinnu á öllum tegundum plasts og málms. Við eru með nokkrar CNC- fræsivélar sem nýtast vel þegar það kemur að framleiðslu á OPTIM-ICE búnaðinum okkar ásamt því að framleiða ýmsa íhluti fyrir okkar viðskiptavini þegar að kemur að heildarlausnum sem tengjast véla-, kæli- eða frystibúnaði.“

Innan fyrirtækisins er ennfremur vagnaleiga, ábygging vörukassa og sala á Carrier kæli- og frystivélum.

„Þessi deild hefur jafnt og þétt verið að sækja í sig veðrið undanfarin ár. Sala á CARRIER kæli- og frystivélum fyrir vörukassa og trailervagna fer vel af stað á árinu og hefur þjónustan einnig verið að taka kipp hjá okkur. Okkar sérframleiddu Schmitz flutningsvagnar með heilopnun hafa einnig verið að sanna gildi sitt hér á markaði.“

Framleiðsludeildin sér aðalega um að framleiða OPTIM-ICE ísþykknikerfi (Liquid Ice) fyrir sjávarútveginn ásamt því að þjónusta OPTIM-ICE kerfi. Undir OPTIM-ICE merkinu framleiðir KAPP ísþykknivélar, forkæla og geymslutanka fyrir ísþykknikerfin.Friðrik segir að mestu tengslin við sjávarútveginn séu í gegnum OPTIM-ICE kerfin og kæliverkstæðið en einnig er vélaverkstæðið að sinna mörgum viðskiptavinum sem starfa í sjávarútvegi. Flutningsaðilarnir séu svo að nýta kæli- og frystivélar í flutningi á meðal annars fiskafurðum. Þá hefur fyrirtækið með höndum uppsetningu á kæli- og frystikerfum, viðgerðarþjónustu bæði til sjós og lands og alhliða lausnum er varðar kælingu og frystingu á hráefni.

Hröð kæling í fiskiskipum

„Það er mjög mikilvægt að kæla fisk hratt fyrstu klukkustundirnar eftir veiði þar sem það lengir geymsluþol, minnkar los í hráefninu og afurðin verður betri. Við það að koma hitastiginu niður fyrir 0 gráður eins hratt og mögulega þá minnkar bakteríumyndun.

OPTIM-ICE búnaðurinn er góð aðferð til að ná fram hámarks kælihraða því flotmikið og fínkristallað ísþykknið umlykur allt hráefnið og orkuyfirfærslan er því gríðarlega hröð. Þessi hraða orkuyfirfærsla hamlar bakteríu- og örveruvexti og hámarksgæði aflans eru tryggð,“ segir Friðrik.

Hann segir að í fiskiskipum náist fram hröð kæling með kerfisbundinni notkun ísþykknis í lestum skipana, þar sem ísþykknið sé notað sem lager fyrir kæliorku sem nýtist þegar aflinn komi um borð. Hin hraða kæling sem verði við þetta, tryggii að aflinn fari í hæsta gæðaflokk. Ísþykknið er framleitt beint úr sjó og stóreykur vinnuhagræðið um borð í skipum.

Ísþykkni hefur verið notað með góðum árangri sem kælimiðill í fiskvinnslum. Í hefðbundinni flakavinnslu hefur notkunin verið mest strax í fiskmóttökum og þar sem fiskurinn er hausaður og flokkaður til lageringar fyrir vinnslu næsta dags. Hægt er að stýra hitastigi á ísþykkninu. Hitastigið á hráefninu er því alltaf það sem óskað er eftir eða undir 0 gráðum