mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fiskur verði ókeypis eins og hjartalyf

13. september 2016 kl. 10:00

Fiskmarkaður á Ítalíu. (Mynd GE)

Miðjarðarhafsmataræði gæti komið í veg fyrir ótímabæran dauða

Hjartalæknar ættu að hugleiða mataræði sjúklinga áður en þeir ávísa lyfjum og stjórnvöld ættu að greiða niður fisk, ávexti og grænmeti í lækningarskyni, að því er sérfræðingar á sviði hjartasjúkdóma telja. Um þetta er fjallað í grein á vefnum seafoodsource.com.

Íbúar við Miðjarðarhafið borða mikið af fiskmeti, ávöxtum, grænmeti, grófu korni og olífuolíu. Þetta þykir meinhollt og ekki spillir fyrir að drekka hóflegt magn af rauðvíni með matnum. Kjötneysla er hins vegar lítil og menn úða ekki í sig smjöri. Hollusta þessa mataræðis er löngu þekkt en nýjar rannsóknir renna styrkari stoðum undir þessa vitneskju. Rannsóknin náði til 1.200 ítalskra hjartasjúklinga og var fylgst með þeim á sjö ára tímabili. Í ljós kom að sjúklingum sem borðuðu hollan mat vegnaði betur. Miðjarðarhafsmataræðið dró þannig úr ótímabærum dauða um 37%.

Niðurstöðurnar vöktu mikla athygli á ráðstefnu hjartasérfræðinga sem haldin var í Róm nýlega. Sérfræðingar sem tóku þar til máls hvöttu stjórnvöld til að hugleiða þann möguleika að bjóða upp á ókeypis grænmeti, ávexti og fisk, eða að minnsta kosti greiða þessar vörur niður til að stuðla að því að fólk neytti hollari fæðu.

Talið er að heilsusamlegt mataræði geti jafnvel leitt til þess í einhverjum tilvikum að fólk með hjartakvilla megi hætta að taka lyf eða að minnsta kosti draga úr lyfjaneyslu. Sérfræðingar spyrja hvers vegna ríkið greiði þá ekki fyrir grænmeti og fisk jafnt og greitt er fyrir lyf. Breskur sérfræðingur tók svo djúpt í árinni í viðtali við the Daily Telegraph að segja að Miðjarðahafsmataræðið sé áhrifaríkara en nokkurt hjartalyf í því að draga úr dauðsföllum.

Fram kom að í Miðjarðarhafsmataræðinu sé fiskur borðaður fjórum sinnum eða oftar í viku. Þetta sé tvöfalt meira magn en bresk heilbrigðisyfirvöld ráðleggja.