mánudagur, 30. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fiskveiðifrumvarpið ávísun á rýrari lífskjör landsmanna

24. ágúst 2011 kl. 08:09

Úr fiskvinnslu.

Landsbankinn sér fram á 20-30 milljarða tap verði frumvarpið að lögum.

Lífskjör landsmanna munu versna og Landsbankinn horfir fram á 20-30 milljarða tap eða virðisrýrnun lána verði fyrirliggjandi frumvarp um breytingar á stjórn fiskveiða að lögum.  Þetta kemur fram í umsögn bankans um frumvarpið sem bankinn hefur sent sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis.

Í  forsendum bankans er miðað við að 0-2% sjávarútvegsfyrirtækja verði gjaldþrota árlega á 15 ára tímabili verði frumvarpið að lögum. Samkvæmt mati bankans verða 18,4% lánasafns hans fyrir beinum áhrifum verði frumvarpið að lögum. Um er að ræða lán samtals að upphæð 114,4 milljarða króna.

Umsögn Landsbankans birtist á vef bankans segir m.a.: „Landsbankinn lýsir yfir miklum áhyggjum af frumvarpinu. Eins og reifað verður i umsögn þeirri sem hér fer á eftir er það mat bankans að þær breytingar sem boðaðar eru í frumvarpinu muni skapa lakari rekstrarskilyrði í sjávarútvegi og draga úr hagkvæmni i greininni. Jafnframt er það mat Landsbankans að frumvarpið feli í sér veruleg neikvæð áhrif á fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu bankans og þar með samsvarandi neikvæð  fjárhagsleg áhrif á íslenska ríkið sem stærsta hluthafa bankans."

Einnig segir í umsögninni: „Mikilvægi íslensks sjávarútvegs er óumdeilt. Gjaldeyristekjur hans standa undir tæpum helmingi af innflutningi landsmanna. Lægri arðsemi af auðlindinni í heild mun því hafa í för með sér að lífskjör landsmanna versna."