miðvikudagur, 11. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fjögur vestfirsk byggðarlög fá viðbótaraflamark

7. nóvember 2013 kl. 15:38

Byggðastofnun ver 1.800 þorskígildistonnum til að efla byggðir í bráðum og alvarlegum vanda

Byggðastofnun hefur valið þá aðila sem gengið verður til samninga við um úthlutun viðbótaraflamarks, en stofnunin hefur næstu fimm ár yfir 1.800 þorskígildistonnum að ráða, sem skal varið til að efla byggðir í bráðum og alvarlegum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi, að því er fram kemur á vef bb.is.

Umsóknir voru samþykktar í fimm af sex byggðum sem auglýst var eftir umsóknum frá, en þar á meðal eru fjögur byggðarlög á Vestfjörðum: Tálknafjörður, Suðureyri, Flateyri og Drangsnes. Einnig verður gengið til samstarfs við aðila á Raufarhöfn. 

„Þetta er ekki í hendi að öðru leyti en því að Byggðastofnun hefur valið þá samstarfsaðila sem hún vill ganga til samninga við. Þá er eftir að ganga frá samningunum sjálfum,“ segir Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar.

400 tonna viðbótaraflamarki verður úthlutað til Tálknafjarðar og Suðureyrar, 300 tonnum til Flateyrar, og 150 til Drangsness, takist að ganga frá samningum. Byggðastofnun gerir samninga við fiskvinnslurnar, sem síðan ganga frá samningum við útgerðarfélögin. 

Sjá nánar á vef bb.is.