mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fjörutíu ár frá komu Bjarts NK

2. mars 2013 kl. 10:52

Bjartur NK kemur til hafnar í Neskaupstað. (Mynd af vef Síldarvinnslunnar).

Hefur fiskað fyrir 25 milljarða króna á núvirði.

Klukkan 8:30 að morgni föstudagsins 2. mars 1973 sigldi skuttogarinn Bjartur NK inn Norðfjörð í fyrsta sinn. Togarinn var fánum prýddur og hafði þarna lokið lengstu samfelldu siglingu norðfirsks skips fyrr og síðar. Bjartur var smíðaður í Japan og siglingin þaðan til heimahafnar tók 49 sólarhringa og var vegalengdin um 13.150 sjómílur.

Útgerð Bjarts hefur gengið vel frá upphafi og hefur ekki þótt vera ástæða til að gera miklar breytingar á skipinu. Árið 1984 var þó sett í skipið ný aðalvél sem var 2.413 hestöfl og árið 2004 hélt Bjartur til Póllands þar sem meiriháttar viðhaldsverkefnum var sinnt. Í Póllandi var endurnýjað um 30 tonn af stáli í skipinu (skutrenna, trolldekk ásamt hluta af afturskipi). Þá var skipið einnig sandblásið

Afli Bjarts NK til síðustu áramóta var nákvæmlega 127.003 tonn. Ársafli skipsins var mestur árið 1981 eða 4.568 tonn en alls hefur ársaflinn fimm sinnum farið yfir 4.000 tonn. Miðað við núverandi fiskverð má gera ráð fyrir að aflaverðmæti Bjarts á þessu 40 ára tímabili nemi um 25 milljörðum króna.

Sjá nánar á vef Síldarvinnslunnar