miðvikudagur, 13. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Á flótta undan ýsunni

Guðsteinn Bjarnason
31. október 2019 kl. 15:00

Guðlaugur Óli Þorláksson, skipstjóri á Hafborginni. MYND/Þorgeir Baldursson

Guðlaugur Óli á Hafborginni segir hvergi hægt að komast í þorsk lengur án þess að fá ýsu í meðafla. Engin leið sé heldur að fá ýsukvóta til leigu.

„Þetta er búið að vera síðan svona síðan tíu daga af september að við erum bara á endalausum flótta. Við flúðum úr Eyjafirðinum austur í Skjálfanda. Svo vorum við í Skjálfandanum og þá var þetta orðin tveir þriðju ýsa í öllum holum og þá flúðum við aftur inn i Eyjafjörð og út að Grímsey. Þar sem við eigum ekki von á að fá nema lítið af ýsu þá erum við kannski að fá 4-5 tonn í hali og þar af kannski tonn af þorski.“

Þannig lýsir Guðlaugur Óli Þorláksson, skipstjóri á snurvoðabátnum Hafborg EA, veiðunum fyrir norðan land undanfarnar vikur. Hann er nánast búinn með ýsukvótann en hefur hvergi getað náð í þorsk án þess að fá ýsuna með.

Engin stjórn á þessu lengur
„Við höfum alveg haft stjórn á þessu undanfarin ár, þorskur og ýsa hafa verið svolítið aðskilið alltaf. En núna er mjög erfitt að fá bara þorsk, það hefur aldrei verið eins erfitt.“

Nú sé staðan þannig að leiguverðið á ýsukvóta sé komið upp úr öllu valdi, auk þess sem ýsukvóti fáist varla nokkurs staðar til leigu lengur.

„Leiguverðið komið langt upp fyrir það sem við fáum fyrir hana. Ég náði í 20 tonn núna og það eru slétt skipti á þorski. Þetta er ekkert orðið hægt að standa í þessu, væri miklu betra að binda. Manni finnst svona að það sé bara leynt og ljóst endanlega verið að ganga frá þessum örfáu móhíkönum sem eftir eru, þessum einyrkjum sem ekki eru með útgerð og vinnslu.“

Guðlaugur Óli hefur stundað dragnótaveiðar frá síðustu aldamótum og þekkir því býsna vel til.

„Þetta hefur alltaf verið að aukast hérna fyrir norðan. Það koma náttúrlega alltaf sveiflur í þetta, en ég held að það sé alveg met í þessari ýsuveiði í ár.“

Á snurvoð síðan um aldamót
Hafborgin er nýr bátur, verður tveggja ára í janúar. Guðlaugur Óli er hins vegar búinn að vera í útgerð síðan 1988 og á snurvoð síðan um aldamót.

„Áður var ég búinn að róa bæði á loðnuskipum og stærri og minni bátum alveg síðan maður var krakki. Þannig að maður er ekkert alveg nýr í þessu,“ segir Guðlaugur og stillir sig ekkert um að skjóta á sérfræðingana: „Það eru ekki margir á Hafró sem eru búnir að vera lengur á sjó. Það þýðir voða lítið að segja þessum sérfræðingum eitthvað, en lífríkið er bara ekki þannig að það sé 40 prósent aukning eitt árið og svo 30-40 prósent niður næsta ár.“

Fimm eru í áhöfninni á Hafborginni, en í sumar fóru þeir á grálúðunet og þá voru þeir sex. Guðlaugur segist alls ekki sjá hvað sé til ráða næstu vikurnar

„Við getum svo sem farið á ufsanet eitthvað, en við eigum svo sem engin ósköp í ufsa. Við höfum tekið hann venjulega bara seinni hluta vetrar.“

Sjá einnig: Ýsan orðin ófáanleg og fokdýr