laugardagur, 19. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Flykkjast frystitogarar á makrílinn?

27. maí 2010 kl. 15:00

Mikill áhugi er hjá útgerðarmönnum að senda frystitogara á makrílveiðar í sumar. Óvíst er þó hve margir togarar fara á þessar veiðar þar sem svo lítið kemur í hlut hvers og eins, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag. 

Allar stærstu útgerðir frystitogara landsins hafa sótt um heimild til að veiða og vinna makríl um borð í sumar. Nú liggur fyrir úthlutun á skip og er hún minni en útgerðarmenn gerðu sér vonir um eða um 230 tonn á frystitogara. Heimilt er að veiða 130 þúsund tonn af makríl í ár. Þessum heimildum verður ráðstafað með þrennum hætti; 112 þúsund tonnum samkvæmt veiðireynslu síðustu þriggja ára, 3 þúsund tonnum til skipa sem fyrirhuga veiðar á línu eða handfæri eða gildrur og 15 þúsund tonnum til annarra skipa.

Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu voru 72 umsóknir í 15 þúsund tonna pottinn, þar af 41 umsókn í stærsta skipaflokknum þar sem frystitogarar eru. Þau skip eiga kost á að veiða 229 tonn hvert, 19 umsóknir voru í miðstærð skipa og fá þau kost á 195 tonnum hvert. Þá bárust 12 umsóknir í minnstu stærðinni og eiga þau skip kost á 160 tonnum hvert. Loks hafa 50 umsóknir þegar borist um leyfi til veiða úr 3 þúsund tonna pottinum.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.